Aðeins fimm félög hækkuðu á rauðum degi Kauphallarinnar í dag. Heildarvelta á aðalmarkaði nam 7,1 milljörðum króna í viðskiptum dagsins, en úrvalsvísitalan lækkaði um 1,23% og stendur nú í 3.317,62.

Mest velta var með bréf Sýn, en viðskipti með bréfin námu 1,5 milljarða króna og hækkaði gengi félagsins um 0,75% í viðskiptum dagsins. Sýn keypti eigin bréf fyrir um 1,4 milljarða, líkt og kom fram í Viðskiptablaðinu í dag. Félagið keypti 21 milljón eigin bréfa eða um 7% hlut, þar á meðal að minnsta kosti 7,2 milljón hluti af lífeyrissjóðum, eða um 2,4% hlut. Verð á hlut var 67 krónur, dagslokagengi föstudagsins.

Nokkur velta var með bréf Eimskips, viðskipti sem námu tæpum 900 milljónum króna og lækkaði félagið um 4% í viðskiptum dagsins, mest allra félaga á aðalmarkaði. Origo lækkaði um tæp 3% í 60 milljóna viðskiptum og VÍS um 2,85% í 340 milljóna viðskiptum. Kvika lækkaði um 1,5% í 600 milljóna viðskiptum.

Skeljungur hækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði, um 4,7% í 450 milljón króna viðskiptum. Félagið hefur nú hækkað um rúmlega 10% á árinu. Brim hækkaði auk þess um 2,7% og Síldarvinnslan um 2,4%.

Á First North markaðnum hækkaði gengi Hampiðjunnar um 2,56% í 80 milljóna viðskiptum. Solid Clouds lækkaði um 8,6% í 60 þúsund króna viðskiptum. Flugfélagið Play lækkaði um 0,4% í 4 milljóna viðskiptum.