791 milljóna króna hagnaður varð af rekstri Skeljungs á síðasta ári en árið áður nam hagnaðurinn um 1,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýútgefnu ársuppgjöri félagsins .

Framlegð nam 9.454 milljónum króna á tímabilinu og hækkaði um 8,6% frá árinu 2019. EBITDA nam 2.676 milljónum króna og lækkaði um 21,8% frá fyrra ári. EBITDA/framlegð var 28,3% miðað við 39,3% 2019.

Arðsemi eigin fjár, á ársgrundvelli, var 8,1% samanborið við 15% árið áður. Hagnaður á hlut var 0,39 krónur í samanburði við 0,68 krónur árið 2019. Keypt voru eigin bréf fyrir 384 milljónir króna á árinu 2020 og greiddur arður að fjárhæð 600 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri nam 1.812 milljónum króna samanborið við 4.573 milljónir króna árið á undan. Eigið fé nam 9.921 milljónum króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall var 38,9%

Í ársuppgjörinu er bent á að Basko ehf. sé hluti af samstæðu 2020 en var einungis einn mánuð inni í samstæðu 2019, sem skekki því samanburð við fyrra ár.

Á fundi sínum í dag ákvað stjórn félagsins að leggja fram á aðalfundi sínum þann 4. mars 2021 tillögu um 350 milljóna króna arðgreiðslu, sem nemur 0,18 krónum á hlut.

Reikna með 3-3,4 milljarða EBITDA í ár

Félagið áætlar að EBITDA ársins 2021 verði á bilinu 3.000-3.400 milljónir króna og fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum verði á bilinu 750-850 milljónir króna. Í afkomuspá félagsins er gert ráð fyrir stöðugu gengi gjaldmiðla og stöðugu olíuverði. Þá er gert ráð fyrir að tekjur af erlendum ferðamönnum á Íslandi verði óverulegar fram á mitt ár.

Krefjandi aðstæður á Íslandi en gott gengi í Færeyjum

„Skeljungur stóð frammi fyrir miklum áskorunum á árinu 2020 vegna COVID-19 þar sem áhrifanna gætti mjög víða í starfsemi félagsins, einkum á Íslandi. Umferð á Íslandi dróst mikið saman á liðnu ári, erlendum ferðamönnum og skemmtiferðaskipum fækkaði. Millilandaflug lá að mestu leyti niðri. Þrátt fyrir miklar áskoranir og minni umsvif í hagkerfinu ferðuðust Íslendingar mikið um Ísland á liðnu sumri og mikill kraftur einkenndi margvíslega starfsemi hjá viðskiptavinum okkar s.s. í verktakastarfsemi, landbúnaði og sjávarútvegi. Farið var í ýmsar hagræðingaraðgerðir á árinu sem eru byrjaðar að skila sér í rekstri félagsins.

Rekstur okkar í Færeyjum var mjög góður á árinu 2020. Stoðirnar í færeysku efnahagslífi eru sterkar og kemur það sér vel fyrir rekstur okkar þar. Gengisveiking íslensku krónunnar gagnvart dönsku krónunni kom samstæðunni til góða í rekstrinum og horfur fyrir árið 2021 eru góðar.

Afkoma ársins litaðist af framangreindum þáttum og í ljósi þess erum við sátt við hvernig til tókst í rekstri samstæðunnar. Samstillt átak starfsfólks okkar, nýjar vinnuaðstæður hjá hluta starfsfólksins og breytingar á umhverfi viðskiptavina okkar voru þess eðlis að félagið þurfti að aðlaga sig að gjörbreyttum veruleika sem ekkert okkar hefur tekist á við áður. Þakklæti til starfsfólks okkar er mér efst í huga.

Það aðlagaðist nýjum og erfiðum kringumstæðum á þann hátt að starfsemi okkar gekk hnökralaust fyrir sig.

Við gengum frá nýjum samningi við Costco um sölu á eldsneyti til næstu tveggja ára. Skeljungur hefur séð um eldsneytissölu til Costco frá upphafi og staðfestir samningurinn það góða og trausta samstarf sem ríkir á milli félaganna.

Undir lok árs keypti Skeljungur allt hlutafé Port I sem á og rekur Dæluna og Löður. Kaupin voru gerð með það að markmiði að auka við þjónustuframboð til viðskiptavina. Kaupin eru til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Á árinu var haldið áfram að styrkja góða stjórnarhætti. Markmið okkar er meðal annars að þróa og skerpa á mælanlegum viðmiðum okkar í stefnumörkun félagsins, meðal annars með því að draga úr neikvæðum áhrifum og auka jákvæð áhrif félagsins á hagaðila þess. Þá er félagið með metnaðarfull markmið varðandi umhverfismál og hefur síðan 2018 kolefnisjafnað allan rekstur sinn.

Árið 2021 mun færa okkur nýjar áskoranir sem við erum í stakk búin til að takast á við. Áherslur okkar munu beinast að því að hagræða í rekstri, einfalda skipulag, skerpa á tekjueiningum og halda áfram að nýta tækifæri til sóknar,“ er haft eftir Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Skeljungs, í ársuppgjörinu.