Skeljungur hagnaðist um 1.262 milljónir á árinu 2016. Árið áður hagnaðist félagið um 1.124 milljónir og eykst því hagnaður félagsins um 12,3% milli ára. Þetta kemur fram í ársuppgjöri Skeljungs.

EBITDA Skeljungs á árinu 2016 nam 2.763 milljónum samanborið við 2.675 milljónir, sem er 3,3% aukning. Framlegð fyrirtækisins nam 7.283 milljónum króna og eykst um 7,1% milli ára .Sala fyrirtækisins árið 2016 nam 45.911 milljónum samanborið við 36.842 milljónum árið áður.

Arðsemi eigin fjár var 16,9% í árslok 2016 samanborið við 13,8% í árslok 2015. Eigið fé í lok árs 2016 nam 7.112 milljónum króna samanborið við 7.477 milljónir árið áður. Skuldir félagsins nema 11.187 milljónum króna í lok árs 2016 borið saman við 10.928 milljónir á sama tíma árið áður. Hagnaður á hlut var 0,56 en var 0,1 á árinu 2015.

Horfur fyrir árið 2017

Skeljungur gerir ráð fyrir því að hagfelld skilyrði verði á mörkuðum miðað við spár greiningaraðila, sem gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna. Í afkomuspá Skeljungs er gert ráð fyrir stöðugu gengi gjaldmiðla og stöðugu olíuverði. Styrking krónunnar mun halda áfram að hafa áhrif á félagið, að þeirra mati, sér í lagi gagnvart dönsku krónunni, vegna erlends hluta starfseminnar.

Félagið gerir ráð fyrir því að EBITDA ársins 2017 verði á bilinu 2.400 til 2.700 milljónir króna og að fjárfestingar liggi á bilinu 750 til 850 milljónir króna. Stjórn Skeljungs mun leggja til að ekki verður greiddur út arður fyrir rekstrarárið 2016.

Metár í rekstri Skeljungs

Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs, segir við tilefnið: „Niðurstaða ársins 2016 er ánægjuleg og sýnir að þær stefnuáherslur sem við höfum verið að innleiða undanfarin ár eru að skila sér. Árið var í senn metár í rekstri Skeljungs og viðburðaríkt, þar sem hæst bar taka hlutabréfa í Skeljungi til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland en undirbúningur þess litaði óhjákvæmilega starfsemina á árinu. Stóraukin sala til erlendra aðila, aukin markaðshlutdeild og umsvif voru einkennandi fyrir árið. Kröftugur hagvöxtur er á báðum mörkuðum félagsins og spár um framtíðarhorfur jákvæðar. Við lítum björtum augum fram á veginn bæði hér heima og í Færeyjum og byggjum á sterkum grunnrekstri sem við höfum þó tækifæri til að bæta enn frekar."