Skeljungur hagnaðist um 1,4 milljarða á síðasta ári miðað við 1,6 milljarða króna hagnað árið 2018 en árið 2018 var besta rekstrarár Skeljungs frá upphafi. Greiða á 600 milljónir króna í arð til hluthafa. Félagið keypti eigin bréf fyrir 550 milljónir á síðasta ári.

„Árið 2019 var mjög gott rekstrarár hjá Skeljungi og við erum ánægð með afkomu ársins, bæði á Íslandi og í Færeyjum. Sjóðsstreymi ársins 2019 var sterkt og það náðist góður árangur í því að draga úr fjárbindingu samstæðunnar og lækka vaxtaberandi skuldir. Helstu verkefni okkar á árinu 2020 verða tengd orkuskiptunum, þróun á smásöluhlutanum, þróun á fasteignum og lóðum ásamt því að ná betri samlegð út úr rekstri samstæðunnar. Sterk fjárhagsstaða Skeljungs skapar tækifæri til frekari fjárfestinga,“ er haft eftir Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Skeljungs í tilkynningu.

Framlegð nam 8,7 milljörðum og hækkaði um 11,4% milli ára. EBITDA ársins nam 3,4 milljörðum og hækkaði um 4,9% milli ára. Félagið ráðgerir að EBITDA ársins 2020 verði 3,4 til 3,7 milljarðar króna og fjárfestingar 700-800 milljónir króna.

Í uppgjörskynningu félagsins kemur meðal annars fram að félagið hafi keypt lóðir við Hveragerði sunnan megin við nýtt vegstæði fyrir Suðurlandsveg.