Skeljungur hagnaðist um 292 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 114 milljónir á sama tíma árið 2020 og 295 milljóna hagnað árið 2019. Sala Skeljungs jókst um 28,6% milli ára og nam 12,1 milljarði á öðrum fjórðungi. Framlegð nam 2,5 milljörðum og hækkaði um 8,6% frá fyrra ári. Eigið fé í lok tímabilsins nam 9.916 m.kr. og eiginfjárhlutfall var 35,2%. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins.

Tekjur Skeljungs á Íslandi á öðrum ársfjórðungi jukust um nærri þriðjung og námu 7,8 milljörðum. Afkoma félagsins af rekstri hérlendis var jákvæð um 208 milljónir fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) á öðrum fjórðungi samanborið við 77 milljóna króna tap á fyrsta fjórðungi ársins. Í skýrslu stjórnar kom fram að áhrif faraldursins hafi haft talsverð áhrif á félagið, sér í lagi á Íslandi þar sem eftirspurn hefur dregist saman.

Afkoma færeyska dótturfélagsins P/F Magn fyrstu 6 mánuðina 2021 er sú besta í sögu félagsins. Tekjur Magns námu 8,6 milljörðum króna og hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var 781 milljón króna. Skeljungur á nú í viðræðum um sölu á P/F Magn við valda tilboðsgjafa sem skiluðu inn óskuldbindandi tilboðum í sumar. Fyrirtækið væntir niðurstöðu í þessum efnum í ágústmánuði.

Greint var frá því í morgun að stjórnendur Skeljungs hefðu til skoðunar að breyta samþykktum félagsins þannig að megintilgangur þess verði fjárfestingastarfsemi. Félagið sendi þó frá sér tilkynningu eftir hádegi í dag þar sem fram kom að engar ákvarðanir hafi verið teknar í þeim efnum. Rétt áður en uppgjörið var birt sendi Skeljungur frá sér tilkynningu þar sem fyrirhugað 10 milljarða króna sala á fasteignum og lóðum var kynnt.

Skeljungur jók nýlega eignarhlut sinn í Brauð & Co og á nú 38% í bakarískeðjunni. Í fjárfestakynningunni kom fram að Brauð & Co muni opna nýtt bakarí við bensínstöð Orkunnar á Laugavegi 180.

Norskt félag höfðar mál

Í árshlutareikningnum kemur fram að Marine Supply A/S, félag í Noregi, hafi höfðað mál gegn Skeljungi hf., P/F Magn, fyrrverandi forstjóra hjá Skeljungi og P/F Magn, einum núverandi stjórnanda hjá P/F Magn sem og fyrrum starfsmanni Marine Supply A/S.

Marine Supply bera fyrir sig meinta ólögmæta meðhöndlun á trúnaðarupplýsingum í kjölfar óformlegra viðræða aðila um mögulegt samstarf í fyrirtækjarekstri árið 2018. Engar fjárkröfur hafa verið settar fram af hálfu stefnanda.

„Skeljungur hf. og P/F Magn hafna alfarið öllum ásökunum sem hafa verið settar fram í málinu og hafa tekið til varna í málinu fyrir dómstólum.“

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, um uppgjörið:

„Afkoma annars ársfjórðungs hjá samstæðunni ber með sér að aðstæður í efnahagslífinu eru smám saman að færast nær því sem var fyrir heimsfaraldurinn.

Við höfum haldið áfram að hagræða í rekstri okkar samhliða þeim skipulagsbreytingum sem áður hefur verið tilkynnt um. Einskiptisáhrif þeirra í rekstrinum eru 100 milljónir króna sem voru gjaldfærðar á fyrri árshelmingi ársins og hafa skilað sér í lækkun rekstrarkostnaðar. Það er ánægjulegt að sjá að rekstrarkostnaður samstæðunnar lækkaði á fyrri árshelmingi um tæplega 7% milli ára að teknu tillti til einskiptiskostnaðar.

Það hefur átt sér stað kröftug viðspyrna í færeysku efnahagslífi sem við sjáum glöggt á afkomu okkar þar en starfsemin í Færeyjum hefur aldrei skilað betri afkomu á fyrri hluta rekstrarárs. Horfur fyrir reksturinn á Íslandi eru góðar að því gefnu að ekki verði miklar raskanir vegna samkomu- eða ferðatakmarkana.

Kaup okkar á Löðri og Dælunni voru samþykkt af Samkeppniseftirlitinu og höfum við tekið yfir þann rekstur. Skrifað var undir kaup á Lyfjavali, sem á og rekur þrjú apótek. Þau kaup voru gerð í gegnum eignarhald okkar í Lyfsalanum og er málið til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Undirritað hefur verið rammasamkomulag við Reykjavíkurborg vegna fyrirhugaðra breytinga á aðstöðu eldsneytisstöðva okkar. Unnið er að frekari útfærslu á samkomulaginu en það er mat okkar að samkomulagið sé hagfellt félaginu til verðmætasköpunar á lóðum okkar.

Áfram er unnið að þeim áherslum sem við höfum áður kynnts.s. að hagræða í rekstri, einfalda skipulag, skerpa á tekjueiningum og að nýta tækifæri til sóknar.“