Olíufélagið Skeljungur hagnaðist um 416 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi borið saman við 255 milljónir á sama tímabili í fyrra. Jókst hagnaður félagsins því um 63% milli ára. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Skeljungs .

Sala nam 9,9 milljörðum króna samanborið við 11,2 milljarða á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs, en framlegð jókst þó 5% milli ára vegna lægri kostnaðarverðs seldra vara og nam 1,7 milljörðum. Skeljungur seldi eldsneyti fyrir rúmlega 9 milljarða (einkum bensín og dísel og skipaeldsneyti) og nam önnur vörusala 862 milljónum. Sala á eldsneyti dróst saman, einkum vegna þess að Icelandair og WOW air endurnýjuðu ekki samninga um kaup á flugvélaeldsneyti við Skeljung.

Rekstrartekjur námu 1,9 milljörðum og jukust um 12,5% á meðan rekstrarkostnaður nam 1,1 milljarði og jókst um 2,2%. EBITDA nam 815 milljónum en var 627 milljónir á sama tíma í fyrra. Að teknu tilliti til einskiptishagnaðar var EBITDA ársins 712 milljónir. EBITDA Skeljungs á Íslandi nam 498 milljónum, en EBITDA frá Færeyjum nam 317 milljónum.

Arðsemi eigin fjár, á ársgrundvelli, var 22,6% samanborið við 14,8% á fyrsta ársfjórðungi 2017.

Bætt afkoma á fyrsta ársfjórðungi helgaðist fyrst og fremst af betri afkomu af eldsneytissölu á Íslandi, í Færeyjum og af alþjóðasölu, auk einskiptishagnaðar upp á 103 milljónir króna vegna uppfærðs eignaverðs á einni af eignum félagsins.

Skeljungur hækkaði afkomuspá sína á dögunum og áætlar félagið að EBITDA ársins verði á bilinu 2,8 til 3 milljarðar króna. Áætlað er að fjárfestingar verði 750 til 850 milljónir.

Eignir Skeljungs námu 21,2 milljörðum í lok mars og var eiginfjárhlutfall 35,8%.

Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs, segir rekstur félagsins ganga vel.

„Við erum ánægð með uppgjör fyrsta ársfjórðungs. Reksturinn gengur vel hvort sem horft er til Íslands, Færeyja eða alþjóðasölunnar. Selt magn er að aukast í öllum tegundum utan flugvélaeldsneytis, umferð á þjóðvegum er að aukast og umfang í sjávarútvegi var meira en á sama tíma í fyrra, en þar hefur sjómannaverkfall sem var í gangi stóran hluta fyrsta ársfjórðungs í fyrra áhrif á samanburð.

Í rekstri félagsins er jákvætt að sjá að þær breytingar sem gerðar voru síðastliðið haust hafa skilað sér í bættri rekstrarniðurstöðu. Þá hafa sameinaðir kraftar söluteyma okkar og breytt skipulagt haft jákvæð áhrif og meðal annars leitt til aukinnar sölu og betri afkomu af alþjóðasölu. Það er einnig jákvætt að sjá áhrif endurfjármögnunar á lánum félagsins, sem hefur haft jákvæð áhrif þegar horft er á fjármagnsliði félagins.

Samhliða stöðugum umbótum í rekstrinum horfum við einnig til framtíðar. Í apríl upplýstum við um kaup á 70% hlut í Demich P/F, sem býður umhverfisvænar húshitunarlausnir í Færeyjum, en kaupin bíða samþykkis samkeppniseftirlitsins í Færeyjum. Olía er lykilorkugjafi við húshitun í Færeyjum og er félagið með um 50% markaðshlutdeild á þeim markaði. Umhverfisvænar húshitunarlausnir eru lítill en vaxandi hluti af færeyska húshitunarmarkaðinum. Með kaupunum á Demich getur félagið boðið upp á heildarlausnir í þjónustu við fyrirtæki og neytendur, óháð því hvaða orkugjafa viðskiptavinurinn kýs að nota. Á Íslandi er einnig í fullum gangi undirbúningur opnunar vetnisstöðva félagsins og hlökkum við til að geta greint betur frá því á næstunni.

Skeljungur stendur mjög vel bæði fjárhagslega og rekstrarlega og það er okkar metnaður að tryggja að svo verði áfram.“

Skeljungur selur vörur og þjónustu á Íslandi, í Færeyjum og á Norður-Atlantshafinu. Meginstarfsemi félagsins er innflutningur, birgðahald, sala og dreifing á eldsneyti og eldsneytistengdum vörum. Félagið starfrækir 76 eldsneytisstöðvar og 6 birgðastöðvar á Íslandi og í Færeyjum. Auk þess rekur selur félagið áburð og og efnavörur á Íslandi og rekur verslanir og þjónustar og selur olíu til húshitunar í Færeyjum. Viðskiptavinir Skeljungs spanna frá einstaklingum til fyrirtækja, í sjávarútvegi, landbúnaði, flutningum, flugi og til verktaka. Starfsemin er rekin undir merkjunum Skeljungur, Orkan, OrkanX og Magn.