*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 28. ágúst 2018 16:28

Skeljungur hagnast um 435 milljónir

Framlegð og EBITDA Skeljungs á öðrum ársfjórðungi var hærri en á sama tímabili í fyrra.

Ritstjórn
Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Skeljungs á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam 435 milljónum króna samkvæmt árshlutauppgjöri félagsins sem birt var fyrir skömmu. Hagnaður félagsins dróst saman um 7,9% frá sama ársfjórðungi í fyrra. Framlegð félagsins jókst hins vegar um 1,7% milli ára og nam 1.979 milljónum króna. Þá lækkaði rekstrarkostnaður félagsins um 32 milljónir milli ára eða um 2,9%

EBITDA félagsins var 907 milljónir á tímabilinu og jókst um 3,5% frá öðrum ársfjórðungi síðasta árs. EBITDA framlegð var 45,8% en var 45% á sama tíma í fyrra. Eigið fé félagsins nam 8.093 milljónum og eiginfjárhlutfall var 35,3% í lok tímabilsins.

Félagið sem hefur í tvígang sent frá sér jákvæða afkomuviðvörun á þessu ári gerir enn ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 3.100-3.300 milljónir króna og að fjárfestingar verði á bilinu 750-850 milljónir króna.

Í fréttatilkynningu vegna uppgjörsins segir Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs:

„Annar ársfjórðungur hefur verið framar væntingum.  Afkoman af rekstrinum er betri en á sama tíma í fyrra, sama til hvaða rekstrarstoðar er litið; Íslands, Færeyja eða til sölu til alþjóðlegra skipa. Selt magn er meira í öllum olíutegundum að undanskildu flugeldsneyti, miðað við sama tímabil árið áður. Skipulagsbreytingarnar sem farið var í undir lok síðasta árs eru farnar að skila sér. Tekist hefur að halda kostnaði niðri þrátt fyrir aukin umsvif og mikinn kostnaðarþrýsting bæði á Íslandi og í Færeyjum. Aukin skilvirkni í rekstri er mikilvægur þáttur í viðleitni félagsins til þess að bjóða upp á ódýrt eldsneyti til neytenda.

Við höldum áfram að þróa vöruframboð félagsins til að mæta breyttri eftirspurn neytenda. Eftir samþykki  Samkeppniseftirlitsins í Færeyjum var gengið frá kaupum á 70% hlut í Demich p/f, sem býður umhverfisvænar húshitunarlausnir í Færeyjum. Einnig opnaði Orkan tvær vetnisstöðvar nú í júní. Þar með býðst neytendum nú nýr umhverfisvænn valkostur sem hefur aðra eiginleika en þeir kostir sem boðið er upp á í dag.  Forsvarsmenn Keilis lögðu til að mynda nýverið land undir fót og óku 536 km á einum vetnistanki.

Dagana 24.-26. september mun Skeljungur halda Kauphallardaga í Færeyjum. Þar munu stjórnendur fyrirtækisins gefa innsýn í fjölbreyttan núverandi rekstur, framvindu á þeim mörkuðum sem félögin starfa á og fyrirætlanir um að sækja þá vaxtarmöguleika sem sú þróun býður. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Skeljungs, þar sem jafnframt fer fram skráning á viðburðinn. Við hlökkum til að sjá ykkur þar!“

Stikkorð: Skeljungur Hagnaður