Hagnaður Skeljungs á öðrum ársfjórðungi 2017 nam 473 milljónum króna samanborið við 418 milljónir á sama tíma í fyrra. Jókst hagnaður því um 12,9% milli ára. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins sem birt var fyrir skömmu.

Hagnaður Skeljungs á fyrri helmingi þessa árs nam 728 milljónum króna sem er aukning upp á 10,4% milli ára.

Framlegð á tímabilinu nam 1.945 milljónum og dregst og lækkar um 4,4 frá öðrum ársfjórðungi 2016. Rekstrarkostnaður nam 1.095 milljónum á ársfjórðungnum og lækkar um 149 milljónir milli ára.

EBITDA hagnaður nam 876 milljónum sem er 4,7% aukning frá sama tímabili árið 2016. EBITDA framlegð var 45% miðað við 41,1% á sama tímabili í fyrra.

Í lok tímabilsins námu eignir félagsins 20.925 milljónum. Eigið fé þann 30. júní nam 7.781 milljónum og eiginfjárhlutfall var 37,2% í ársfjórðungslok.

Horfur fyrir árið 2017

Í afkomuspá félagsins er gert ráð fyrir stöðugu gengi gjaldmiðla og stöðugu olíuverði. Breytingar á gengi íslensku krónunnar munu áfram hafa áhrif á rekstrarniðurstöður félagsins, sér í lagi gagnvart dönsku krónunni, vegna erlends hluta starfseminnar.

Í tilkynningu frá Skeljungi vegna uppgjörsins kemur fram að þar sem afkoma félagsins hafi verið góð það sem af er ári hafi EBITDA spá fyrir árið 2017 verið breytt úr 2.400-2.700 milljónir í 2.550-2.750 milljónir. Ekki voru gerðar breytingar á áætlunum um fjárfestingar sem eru enn á bilinu 750-850 milljónir króna.

Í tilkynningunni segir Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs:

"Annar fjórðungur ársins var róstusamur, með kraftmikilli innkomu Costco á markaðinn, samrunaþreifingum markaðsaðila og töluverðum sveiflum á olíuverði og íslensku krónunni. Áframhaldandi aukning hefur verið í seldum lítrum og er niðurstaða ársfjórðungsins góð. Báðar rekstrareiningar eru að bæta sig á milli tímabila en styrking íslensku krónunnar hefur áhrif á færeyska hlutanum. Endurfjármögnunin, sem lauk í lok fyrsta ársfjórðungs, skilar sér í umtalsverðri lækkun vaxtakostnaðar á fjórðungnum, auk þess sem rekstrarkostnaður félagsins er að lækka þrátt fyrir kjarasamningshækkanir sem og almennar kostnaðarhækkanir."