Dótturfélag Skeljungs í Færeyjum, p/f Magn, hefur keypt 70% hlut í þjónustufyrirtækinu Demich, sem sérhæfir sig í umhverfisvænum húshitunarlausnum í Færeyjum að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Ekki er greint frá kaupverðinu en með kaupunum telur Magn sig hafa styrkt stöðu sína á færeyskum húshitunarmarkaði, en félagið er fyrir seljandi húshitunarolíu, búnaðar til olíuhitunar og tengdrar þjónustu við neytendur.

Olía er lykilorkugjafi við húshitun í Færeyjum. Stjórnvöld hafa hins vegar einsett sér að auka hlutdeild umhverfisvænni húshitunarlausna, sem enn eru lítill hluti af heildarmarkaðnum. Eftir kaupin mun Magn því geta boðið upp á heildarlausnir í þjónustu tengdri húshitun, óháð því hvað orkugjafa viðskiptavinurinn kýs að nota.

"Við þjónustum þúsundir heimila í Færeyjum og ætlum áfram að vera leiðandi á húshitunarmarkaðnum. Kaupin á Demich styrkja vöruframboð okkar, við getum náð fram hagræðingu í sameiginlegum rekstri og erum í betri stöðu til að nýta tækifærin sem eru framundan. Það mun taka tíma að innleiða græna orkugjafa í Færeyjum, en ef stjórnvöld auka samkeppni og frelsi á raforkumarkaði má flýta þeirri þróun og auka hagkvæmni neytendum til hagsbóta,“ er haft eftir Hendrik Egholm, forstjóra Skeljungs í tilkynningunni.