Skeljungur gengur í dag frá kaupum á P/F Føroya Shell sem verið hefur í eigu Shell International Petroleum Company Limited. Starfsemin verður áfram rekin undir vörumerki Shell með sama hætti og hér á landi. Kaupverð er trúnaðarmál segir í frétt félagsins.

Stjórnarformaður Føroya Shell, Petra Koselka, segir: ?Skeljungur hefur í mörg ár starfað undir vörumerki Shell á Íslandi þannig að það er okkur ánægjuefni að Skeljungur taki við sem nýr eigandi félagsins.?

Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri Skeljungs, segir: ?Við erum þess meðvituð að við erum að taka við traustu félagi með djúpar rætur í færeysku samfélagi. Við hlökkum til að halda áfram frábæru starfi sem unnið hefur verið af starfsfólki og stjórnendum í þeim tilgangi að viðhalda góðum árangri undanfarinna ára.?

Í síðustu viku sagði Hakun Djurhuus starfi sínu lausu sem forstjóri P/F Føroya Shell. Skeljungur leitar nú nýs eftirmanns í Færeyjum.

Skeljungur mun taka yfir alla starfsemi P/F Føroya Shell, sem samanstendur af 10 þjónustustöðvum, tveimur birgðastöðvum, 13 olíuflutningabifreiðum og olíuflutningaskipinu Magn. Sala til fyrirtækja felst einkum í sölu til sjávarútvegs, gasolíusölu til iðnaðar og innlendra viðskiptavina sem og sölu á bensíni, díselolíu, svartolíu og smurolíum. Hjá félaginu, sem fagnaði 80 ára starfsafmæli árið 2005, starfa um 100 manns.

Skeljungur hf. rekur hér á landi rúmlega 60 útsölustaði og 15 birgðastöðvar um allt land. Hjá Skeljungi starfa í dag um 300 manns. Þann 14. janúar nk. fagnar Skeljungur 80 ára starfsafmæli sínu undir vörumerki Shell.