*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 5. mars 2020 13:31

Skeljungur kaupir rekstur Baulunnar

Fimm árum eftir að Skeljungur hætti rekstri þjónustustöðvar í Borgarfirðinum stefnir félagið að uppbyggingu á nýjum stað.

Ritstjórn
Árni Pétur Jónsson forstjóri Skeljungs hefur eflaust oft keyrt framhjá Baulunni á leið sinni á heimaslóðir vestur í Bolungarvík, en aðalleið Vestfirðinga liggur um Bröttubrekkur og er Baula síðasta þjónustumiðstöðin áður en lagt er á brattann.
Eyþór Árnason

Skeljungur hefur fest kaup á þjónustumiðstöðinni Baulunni í Borgarfirði, sem liggur við Þjóðveg 1 á leiðinni norður í land, skömmu áður en kemur að afleggjaranum upp Bröttubrekkurnar þar sem þjóðvegurinn til Vestfjarða liggur um. Í kaupunum felast allur fasteignar- og lóðarréttur ásamt verslunarrekstri á svæðinu þar sem verslunin er til húsa.

Fyrirhugað er að bensínstöð Orkunnar opni á svæðinu á komandi mánuðum og rekstur veitingasölunnar verði efldur. Á Baulunni, sem heitir eftir samnefndu og einkennandi gráu fjalli sem gnæfir yfir Borgarfirðinum, hefur löngum verið rekin olíusala frá Olís, nú ÓB.

Skeljungur var löngum með þjónustustöð í Borgarnesi í kappi við Hyrnuna sem er með eldsneyti frá N1, en Olís hafði þá einungis bensínstöð í Brákey, en opnaði nýja þjónustustöð við Brúartorgið árið 1998.

Skeljungur byggði svo nýja þjónustustöð á gömlu lóð sinni við Brúartorgið við brúna yfir Borgarfjörðinn árið 2011, en þá var reksturinn undir vörumerkinu Stöðin sem nú er ekki lengur í notkun. Árið 2015 tók Grillhúsið við rekstri í húsinu og síðan þá hefur Skeljungur ekki haft þjónustumiðstöð í Borgarfirðinum, sem horfir nú til breytinga.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs segir:

„Við erum full tilhlökkunar að taka við rekstri hinnar víðfrægu Baulu í Borgarfirði. Er þetta áframhaldandi skref í að framfylgja stefnu okkar um að þétta stöðvanetið og efla þjónustuna enn betur við íbúa landsbyggðarinnar.“