Skeljungur hefur keypt 33,4 hektara land í Mosfellsbæ, á svokölluðu Helgafellslandi, en þetta kom fram í fjárfestakynningu félagsins fyrir uppgjör annars ársfjórðungs. Seljandi lóðarinnar er Klakki ehf. en kaupverðið er trúnaðarmál.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, telur þetta vera mjög spennandi svæði fyrir félagið, sem starfrækir enga þjónustustöð í Mosfellsbæ í dag. Hann tók þó fram að þróun á svæðinu sé á frumstigi en sökum stærðar muni líklega koma meira en einungis þjónustustöð. Hann býst við að þarna verði einnig rafhleðslustöðvar og það komi til greina að opna Gló veitingastað eða Brauð&Co bakarí, en Skeljungur tilkynnti í gær um 25% kaup á báðum stöðum .

Þróun og uppbyggingu á svæðinu verður í samráði við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ en Árni segir að þarna sé vinsælt útivistarsvæði og því komi til greina að leggja hjólastíga og gönguleiðir.