Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,59% í ríflega 1,1 milljarðs króna viðskiptum dagsins. Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði einnig um 0,12% og stendur því í 1.356,58 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu rúmlega 4 milljörðum króna.

Einu félögin sem hækkuðu í virði í kauphöllinni í dag voru annars vegar Eik um 0,10% og standa bréf félagsins í 10,07 krónum eftir 81 milljón króna viðskipti en hins vegar VÍS sem hækkaði um 0,17% í 23 milljón króna viðskiptum en bréf tryggingafélagsins standa nú í 11,92 krónum.

Flest önnur félög á markaði lækkuðu eða stóðu í stað. Mest lækkuðu bréf Skeljungs eða um 2,71% og standa bréf félagsins í 7,17 krónum eftir viðskipti dagsins sem námu 142 milljónum króna. Þá lækkaði Marel næst mest eða um 1,22% í 169 milljón króna viðskiptum. Við lokun markaða var gengi bréfa Marels því 324,00 krónur.

Mest voru viðskipti með bréf Símans en þau námu 174 milljónum króna en bréf félagsins lækkuðu um 0,48% og standa nú í 4,12 krónum.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,6% í dag í 1,1 milljarðs viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,2% í 2,9 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,2% í 0,2 milljarða króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 2,7 milljarða króna viðskiptum.