*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 13. ágúst 2020 16:02

Skeljungur lækkar eftir uppgjörið

Reginn lækkaði mest félaga í dag eða um 1,8% en fasteignafélagið hefur lækkað um 27% á árinu.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,25% í 1,4 milljarða króna veltu Kauphallarinnar í dag. Hagar hækkuðu mest allra félaga Kauphallarinnar í dag eða um 1% í 209 milljóna veltu. Hlutabréf Regins lækkuðu mest eða um 1,8% í 22 milljóna viðskiptum en fasteignafélagið mun birta árshlutauppgjör seinna í dag. Gengi Regins hefur lækkað um tæp 27% á árinu.

Mesta veltan var með bréf Símans sem hækkuðu um 0,8% í 242 milljóna veltu og stóðu í 6,61 krónu á hlut við lokun Kauphallarinnar. Það slær fyrra met fyrirtækisins um 0,01 krónu frá því á þriðjudaginn síðasta. 

Skeljungur lækkaði um 1,2% í 94 milljóna veltu en fyrirtækið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun markaða í gær. Hagnaður Skeljungs nam 114 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 295 milljónir árið áður.

Marel lækkaði um 0,4% í 222 milljóna viðskiptum og standa bréf fyrirtækisins í 702 krónum á hlut. Kvika banki lækkaði um 1,4% í 122 milljóna viðskiptum en Arion banki hækkaði um 0,1% í 115 milljóna veltu. 

Stikkorð: Nasdaq Kauphöllin