Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,40% í viðskiptum dagsins. Veltan á hlutabréfamarkaði nam 1,4 milljörðum króna og endaði hún í 1.710,64 stigum.

Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,19% í 3,5 milljarða króna viðskiptum og endaði hún í 1.240,79 stigum.

Marel og Hagar hækkuðu mest

Bréf Marel hækkuðu mest í kauphöllinni í dag, eða um 0,64% í 105,5 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 236,0 krónur.

Næst mest hækkuðu bréf Haga í verði, eða um 0,47% í 12,5 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfanna er nú skráð á 53,60 krónur.

Icelandair og Skeljungur lækkuðu einna mest

Af þeim hlutabréfum sem voru í teljandi viðskiptum lækkaði gengi bréfa Icelandair mest, eða um 2,32% í 281 milljón króna viðskiptum. Fæst nú hvert bréf félagsins á 23,20 krónur.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa Skeljungs eða um 1,16% í 65,5 milljón króna viðskiptum. Hvert bréf félagsins er nú verðlagt á 6,82 krónur við lokun markaða, en þegar fyrirtækið var skráð á markað á föstudaginn var gengið skráð sem 6,90 krónur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,3% í dag í 1,3 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,2% í dag í 3,2 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 0,3 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,6% í 2,6 milljarða viðskiptum.