Norvik, fjárfestingafélag Jóns Helga Guðmundssonar, er orðið stærsti hluthafi Wedo, eiganda Heimkaupa, ásamt Skeljungi. Félögin eiga hvort um sig fjórðungshlut í Wedo eftir ríflega 1,3 milljarða króna hlutafjáraukningu í félaginu.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í desember keypti hluthafahópur undir forystu Hjalta Baldurssonar, stofnanda Bókunar, 40% hlut í Wedo, í desember. Hjalti er nú orðinn stjórnarformaður félagsins.

Núverandi hluthafar höfðu tækifæri út janúar til að ákveða hvort þeir tækju þátt í hlutafjáraukningunni. Skeljungur, sem var stærsti hluthafinn fyrir hlutafjáraukninguna með þriðjungshlut, tók þátt og lagði Wedo til 227 milljónir króna í janúar að því er fram kemur í uppgjöri félagsins sem birt var í dag.

Markmið hlutafjáraukningarinnar var að styrkja frekari vöxt félagsins. Í viðtali við Frjálsa verslun í desember sagði Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Wedo, að heimsfaraldurinn hefði fært netverslun hér á landi fram um þrjú ár.

Norvik er meðal annars eigandi Byko og timburframleiðenda víða um Evrópu.