Grænt var yfir að litast á Aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, enda hækkaði gengi 14 félaga af þeim 20 sem skráð eru á markaðinn í viðskiptum dagsins. Heildarvelta viðskipta dagsins nam 3,2 milljörðum króna.

Þrátt fyrir það lækkaði OMXI10 úrvalsvísitalan um 0,13%, en líkt og nafn hennar gefur til kynna er hún samsett úr tíu félögum sem skráð eru á Aðalmarkað og endurspeglar því ekki gengi allra félaga.

Mest hækkaði gengi Skeljungs, eða um 4,47% í 20 milljóna króna viðskiptum. Stendur gengi félagsins í kjölfarið í 11,46 krónum á hlut.

Í morgun var sagt frá því að breytingar verði gerðar á samþykktum félagsins sem fela í sér að megintilgangur þess verði fjárfestingastarfsemi . Eftir hádegi sendi Skeljungur þó frá sér tilkynningu þar sem stjórn félagsins áréttaði að engin ákvörðun hafi verið tekin varðandi hugmyndirnar um að breyta Skeljungi í skráð fjárfestingafélag.

Næst mest hækkaði gengi hlutabréfa Icelandair sem hækkaði um 4,05% í 105 milljóna króna viðskiptum. Stendur gengi bréfa flugfélagsins nú í 1,54 krónum á hlut, sem er 54% yfir útboðsgengi bréfa félagsins í hlutafjárútboði sem fór fram fyrir tæpu ári síðan. Þá nartaði Eik fasteignafélag í hæla flugfélagsins með 4,02% hækkun.

Gengi þriggja félaga, Arion banka, Brims, Haga, Marels, Sjóvár og Sýnar lækkaði í viðskiptum dagsins. Í öllum tilfellum var þó um innan við 1% lækkun að ræða.