Í dag hefjast viðskipti með hlutabréf Skeljungs hf. á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Skeljungur telst til smærri fyrirtækja (e. small cap) í olíu og gasgeiranum.

Skeljungur er annað félagið sem tekið er til viðskipta á Nasdaq Iceland árið 2016, en 81 félagið á mörkuðum Nasdaq Nordic* á árinu 2016.

Skráning Skeljungs velkomin og eftirktektarverð

Haft er eftir Valgeiri Baldurssyni, forstjóra Skeljungs, í tilkynningu til Kauphallarinnar, að þau í Skeljungi eru afar ánægð með áfangann og þann mikla áhuga sem fjárfestar sýndu í hlutafjárútboðinu. „Við teljum þetta vera viðurkenningu á því góða starfi sem unnið er í félaginu. Þetta er mjög mikilvægur áfangi fyrir fyrirtækið, starfsfólk, hluthafa og viðskiptavini. Við hlökkum til framtíðarinnar sem skráð fyrirtæki og bjóðum nýja hluthafa velkomna í fyrirtækið,“ er jafnframt haft eftir honum.

Við tilefnið segir Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, „Skráning Skeljungs er mjög velkomin og eftirtektarverð. Félagið er fyrsta skráningin á íslenska Aðalmarkaðinn í ár en einnig fyrsta félagið í sínum geira á markaðnum. Einnig er gleðilegt að sjá að áhugi almennings á félaginu er mikill. Við óskum félaginu, starfsfólki og hluthöfum innilega til hamingju með skráninguna og bjóðum það velkomið á markaðinn. Við hlökkum til að styðja við félagið á vegferð þess sem skráð fyrirtæki.“