Fjárfestarnir sem standa að yfirtökutilboð í Skeljungi, í gegnum félagið Streng, stefna á að efnahagsreikningur Skeljungs minnki töluvert á næstu þremur árum. Þetta kemur fram í svörum sem félagið birti dag við spurningum fjárfesta.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um , verður að yfirtökutilboðið sé að stærstum hluta fjármagnað með lánsfé frá Arion banka, Íslandsbanka og öðrum lánveitendum. Til að greiða lánin til baka hyggjast forsvarsmenn Strengs selja eignir Skeljungs og greiða hluthöfum arð eða lækka hlutafé. Einnig er stefnt að því að afskrá Skeljung úr Kauphöll Íslands.

Sjá einnig: Fjármagna kaup með lánum og eignasölu

Strengur ráðgerir að bjóða valdar rekstrareiningar, fasteignir og lóðir félagsins til sölu. „Einnig kemur til greina að úthýsa starfsemi sem reka má með hagkvæmari hætti utan félagsins. Engar rekstrareiningar eða eignir Skeljungs eru undanskildar slíkri skoðun," segir í svörunum. Bókfært virði eigna Skeljungs í lok september var 27,5 milljarðar króna en eigið fé ríflega 10 milljarðar króna.

Tilboðsgjafarnir hafa áður gefið út að ljóst sé að hefðbundnar bensínstöðvar séu á útleið vegna orkuskipta. Reykjavíkurborg vilji fækka bensínstöðvum um helming 2025 og banna á sölu nýrra dísil og bensínbíla hér á landi árið 2030. „Tilboðsgjafi mun því reyna að selja lóðir þar sem talið er að sala skili hærra virði fyrir Skeljung en að halda stöðvum áfram í rekstri. Í kjölfarið má gera ráð fyrir að félagið verði smærra í sniðum og eignaléttara. Vilji tilboðsgjafa er að starfsemin verði betur í stakk búin til að mæta hröðum breytingum sem fylgja orkuskiptum á næstu árum.“

Bent er á að lítil samlegð á milli starfsemi Skeljungs á Íslandi og í Færeyjum en um þriðjungur af tekjum Skeljungs í fyrra voru vegna tekna í Færeyjum.

Á sama tíma á að leita nýrra tækifæra á öðrum sviðum, til dæmis neytendamarkaði. Skeljungur á fyrir Wedo sem rekur meðal annars Heimkaup og fleiri netverslanir, á hlut í Brauð & co og Gló. Skeljungur keypti nýlega bensínstöðvar Dælunnar og bílaþvottastöðina Löður. Þá greindi Viðskiptablaðið nýlega frá því að Skeljungur hefði tekið þátt í að bjóða í rekstur Domino's á Íslandi.

Sjá einnig: Birgir og Skeljungur á eftir Domino's

Í svörunum er bent á tilkynningu ríkisstjórnarinnar frá 10. desember um ný markmið í loftslagsmálum. „Í kjölfarið á þessari tilkynningu telur tilboðsgjafi að áskoranir Skeljungs hvað orkuskipti varðar muni jafnvel raungerast fyrr en talið var og því mikilvægt að nauðsynlegar breytingar nái fyrr fram að ganga en ella," segir í svarinu.

Boða kaupaukakerfi og færri millistjórnendur

Þá hyggjast fjárfestarnir einfalda ákvarðanatöku og stjórnskipulag innan félagsins, fækka millilögum og „koma á kaupaukakerfi fyrir lykilstarfsmenn sem munu koma að framkvæmd áætlana Strengs.“

Að baki yfirtökutilboðinu standa þrjú félög sem samtals eiga 39% í Skeljungi í gegnum félagið Streng ehf.  Félögin þrjú eru 365 hf., RES 9 og RPF. 365 og RES 9 eiga bæði 38% í Streng og RPF með 24%. 365 er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur en Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, er stjórnarformaður Skeljungs. RES 9 er í eigu hjónanna Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttir, og breska fjárfestingafélagsins No. 9 Investments Limited. RPF er í eigu Þórarins A. Sævarssonar, sem er stjórnarmaður í Skeljungi, og Gunnars Sverris Harðarsonar, sem eiga einnig fasteignasöluna RE/MAX Senter. Sami hópur er einnig meðal stærstu hluthafa fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns.