Skeljungur hefur lýst yfir andstöðu við tillögu um að ný bensínstöð verði opnuð við hliðina á Select stöð félagsins við Reykjanesbraut, nánar tiltekið við Dalveg 20 í Kópavogi, aðeins 3 metra frá lóðarmörkum. Það er fyrirtækið Teitur Jónasson hf. sem hefur óskað eftir breytingu á deiliskipulagi við Dalveg 22, við hlið Select stöðvarinnar. Hyggst Teitur Jónasson hf. reisa þar sjálfsafgreiðslustöð fyrir bensín aðeins 3 metra frá lóðarmörkum.

Í frétt á heimasíðu Skeljungs kemur fram sú skoðun að áformuð bensínstöð brýtur í bága við gildandi skipulag og kröfur um brunavarnir. "Hætta er á umferðartöfum á Reykjanesbraut vegna þess að umferð að hinni nýju stöð færi um sömu aðrein og umferð að Select stöðinni. Þeir bílar sem aka að hinni nýju stöð frá Reykjanesbraut munu jafnframt eiga í miklum vandræðum með að komast frá henni aftur inn á Reykjanesbraut," segir í fréttinni.

Skeljungur hefur lýst yfir andstöðu við fyrirhugaða sjálfsafgreiðslustöð óháð því hver ætlaði að opna hana. Í dag, miðvikudaginn 15. desember, kom hins vegar fram í fréttum að fyrirhuguð bensínstöð væri ekki á vegum lóðarhafans Teits Jónassonar hf. heldur á vegum Atlantsolíu. Nafn Atlantsolíu hefur ekki komið fram í gögnum þessa máls hjá bæjaryfirvöldum í Kópavogi heldur aðeins nafn Teits Jónassonar hf.

Skeljungur hefur síður en svo á móti því að Atlantsolía eða Teitur Jónasson hf. opni nýja bensínstöð. Hins vegar er vandséð hvers vegna hún þarf að vera í túnfætinum á Select stöðinni.

Skeljungur benti á það í bréfi til bæjarskipulags Kópavogs 7. desember síðastliðinn að þegar félagið fékk lóðina við Dalveg undir Select stöðina, hafi að sjálfsögðu ekki verið gert ráð fyrir annarri bensínstöð í nokkurra metra fjarlægð. Engar þjónustulegar né skipulagslegar forsendur séu fyrir því að breyta þessu, enda vandséð hvers vegna ný bensínstöð þurfi að rísa nánast ofan í hálsmálinu á þeirri sem fyrir er.

Þá bendir Skeljungur á að tilkoma nýrrar bensínstöðvar á þessum stað geti leitt til minnkandi viðskipta á Select stöðinni. Slíkt leiði til minni tekna, lækkandi fasteignaverðs og verri nýtingarmöguleika. Í auglýsingu Kópavogsbæjar um deilskipulagstillöguna er tekið fram að bærinn muni annast bótagreiðslur til þeirra sem telja sig verða fyrir tjóni. Þar af leiðandi áskilur Skeljungur sér rétt til skaðabóta úr hendi bæjarins. Ekki er verið að gera bótakröfu til þess aðila sem hefur í hyggju að opna hina nýju bensínstöð, þótt annað mætti álykta af fréttaflutningi þess aðila í dag.