Hlutabréfaverð í Skeljungi hefur hækkað um 9,38% í 248 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Í gær barst tilkynning til Kauphallarinnar að fyrirtækið hafi hækkað afkomuspá sína um meira en 10%.

Stjórnendur fyrirtækisins hækkuðu EBITDA spá sína úr 2.800-3.000 milljónum króna í 3.100-3.300 milljónir króna.

Verð á hlutabréfum í Reitum hækkaði einnig í fyrstu viðskiptum dagsins eða um 1,19% í 89 milljóna króna viðskiptum. Reitir birti uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung þessa árs eftir lokun markaða í gær, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá. Fram kom í uppjgörinu að fasteignafélagið hafi hagnast um 322 milljónir króna. Á sama tíma í fyrra hagnaðist fyrirtækið um 2,7 milljarða króna, en samdrátturinn er vegna viðsnúnings matsbreytinga fjárfestingaeigna.