*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Innlent 21. janúar 2021 15:18

Skeljungur selur allt í Icelandair

Fjárfesting olíufélagsins í hlutafjárútboði Icelandair skilaði 63,5% ávöxtun. Seldu einnig áskriftarréttindi að 31,5 milljónum hluta.

Ritstjórn
Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs.
Aðsend mynd

Skeljungur hefur selt öll hlutabréf sín í flugfélaginu Icelandair. Olíufélagið keypti 126 milljónir hluta í Icelandair á genginu 1 í hlutafjárútboði flugfélagsins síðasta haust og eignaðist þá 0,44% hlut í félaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar en flugfélaginu bar skylda til að tilkynna viðskiptin þar sem Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, situr í stjórn Skeljungs og er þ.a.l. með stöðu fruminnherja.

Líkt og fyrr segir hefur Skeljungur nú selt umrædda hluti á genginu 1,635. Nemur andvirði sölunnar því ríflega 206 milljónum króna. Fjárfesting félagsins í Icelandair skilaði því 63,5% ávöxtun.

Í tilkynningunni er það tekið fram að fruminnherjinn Birna Ósk, sem er einn af fimm stjórnarmönnum Skeljungs, hafi hvorki haft aðkomu né vitneskju um þessa ákvörðun.

Uppfært: Skeljungur hefur einnig gengið frá sölu á áskriftarrétindum sínum í Icelandair en félagið átti áskriftarréttindi að 31,5 milljónum hluta í Icelandair. 2/3 af áskriftarréttindunum voru seldar á genginu 0,5324 en restin var seld á genginu 0,52. Söluandvirði áskriftarréttindana nemur því tæplega 17 milljónum króna.  

Fréttin hefur verið uppfærð.