Skeljungur skilaði 20 milljóna króna hagnaði á árinu 2009, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Sala dróst saman um 2,5 milljarða króna á milli ára og nam 22,9 milljörðum króna. Þá lækkuðu skuldir Skeljungs um 4,5 milljarða króna í fyrra og námu 13,9 milljörðum króna um síðustu áramót.

Eigið fé var jákvætt um 2,5 milljarða króna en hafði verið neikvætt árið áður.

Félag í eigu Guðmundar Arnar Þórðarsonar, Birgis Þórs Bieltvedt og Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur keypti 51% hlut í Skeljungi í ágúst 2008. Þau keyptu síðan restina í júní síðastliðnum af Íslandsbanka. Bankinn fékk Skeljung í fangið frá Glitni sem hafði sölutryggt félagið í heild sinni fyrir félag í eigu Pálma Haraldssonar fyrir 8,7 milljarða króna. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að nýir eigendur Skeljungs hafi greitt undir þrjá milljarða króna alls fyrir fyrirtækið.