Skeljungur tilkynnti í dag um að stjórn félagsins hafi ákveðið að meta framtíðarkosti eignarhalds á fasteignum félagsins og verður sérstaklega horft til fasteigna á höfuðborgarsvæðinu.

„Í því felst að skoða mögulega sölu á fasteignum Skeljungs, í heild eða að hluta, í því skyni að hámarka verðmæti þeirra, en matið getur jafnframt leitt til óbreytts eignarhalds,“ segir í tilkynningunni. Fram kemur að fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sé ráðgjafi Skeljungs.

Þá hefur stjórnin heimilað Árna Pétri Jónssyni forstjóra að ganga til samninga við Reykjavíkurborg, um mögulega þróun og breytingar á ákveðnum lóðum félagsins. Sá samningur felur ekki í sér skuldbindingu um annað en að leggja tillögur að breyttri nýtingu lóðanna fyrir Reykjavíkurborg.

Skeljungur hefur nýlega einnig óskað eftir óskuldbindandi tilboðum í færeyska dótturfélagið P/F Magn og tilkynnti um helgina að gengið yrði til viðræðna við valda tilboðsgjafa.