Skeljungur hefur ákveðið að stofna tvö ný sjálfstæð dótturfélög til að „skerpa enn frekar á áherslum í rekstri. Stjórn félagsins mun boða til hluthafafundar á næstunni, þar sem meðal annars verður lögð fram tillaga um breytingu á tilgangi í samþykktum „þannig að aukin áhersla verði lögð á stýringu eignarhluta í rekstrarfélögum og fjárfestingastarfsemi“, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Annað af þessum tveimur nýju dótturfélögum mun vera tileinkað starfsemi á einstaklingssviði. Inni í því félagi verða þjónustustöðvar Orkunnar, Extra, 10-11, Löðurs bílaþvottastöðva, apóteka og Lyfsalans og Lyfjavals, reksturinn á Gló ásamt ýmsum fasteignum tengdum framangreindum rekstri. Félagið mun einnig halda utan um eignarhlut Skeljungs í Brauð & Co og Wedo, móðurfélags Heimkaups.

Skeljungur tilkynnti í lok júní um kaup á 46% í Lyfsalanum og eignaðist þar með 56% hlut í apótekinu. Samhliða því keypti Lyfsalinn apótekið Lyfjaval og Landakot fasteignafélag á 1,5 milljarða króna. Samkeppniseftirlitið heimilaði kaup Lyfsalans á Lyfjavali og Landakoti í síðustu viku.

Hitt dótturfélagið nær utan um starfsemi fyrirtækjasviðs. Það félag mun einkum sjá um sölu og þjónustu við fyrirtæki, dreifingu og innkaup á eldsneyti, smurolíum, hreinsi- og efnavörum, áburði sem og öðrum vörum og þjónustuþáttum til fyrirtækja. Þá verður þjónusta og sala til stórnotenda, í útgerð, flugi og verktöku, einnig hluti af starfseminni ásamt fasteignum tengdum framangreindum rekstri. Félagið mun þar þar að auki halda á eignarhlutum Skeljungs í Íslenska Vetnisfélaginu ehf., EAK ehf., Barki ehf. og fleiri tengdum félögum.

Skeljungur hafði áður tilkynnt um stofnun félags utan um rekstur og útleigu á birgðastöðvum.

Fram kemur að ákvörðun stjórnarinnar um að skipta rekstrinum upp í aðgreind félög fylgi því að ákveðið var að hefja einkaviðræður við SP/f Orkufelagið um sölu á færeyska dótturfélaginu P/F Magn fyrir um 10 milljarða króna. Einnig er ákvörðunin sögð í samræmi við áform Skeljungs um að setja lóðir og fasteignir félagsins í formlegt söluferli en heildarvirði þeirra eigna var sagt hljóða upp á 10 milljarða.

Stjórn Skeljungs mun boða til hluthafafundar á næstunni vegna uppskiptingu rekstrarins og heimild til sölunnar á Magn. Einnig verður óskað eftir heimild til að hefja endurkaup á eigin bréfum með tilboðs fyrirkomulagi.

Sjá einnig: Skeljungur verði skráð fjár­festinga­fé­lag

Líkt og kom fram að ofan verður lögð fram tillaga um breytingu á tilgangi í samþykktum „þannig að aukin áhersla verði lögð á stýringu eignarhluta í rekstrarfélögum og fjárfestingastarfsemi“. Markaðurinn greindi fyrst frá þessum áformum í fyrri hluta ágústmánaðar en þar kom fram að Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljungs, hafi kynnti hugmyndirnar fyrir lífeyrissjóðum sem eru í hópi stærstu hluthafa félagsins.

Stjórn Skeljungs sendi hins vegar frá sér tilkynningu í kjölfar fréttaflutnings af áformunum að breyta félaginu í skráð fjárfestingafélag. Stjórnin árétti að engin slík ákvörðun hafi verið tekin en mun nú leggja fram tillögu þess efnis á hlutahafafundinum.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs:

„Í samræmi við áherslur og stefnumótunarvinnu félagsins hafa ýmsar veigamiklar breytingar á rekstri félagsins átt sér stað á undanförnum misserum, m.a. stofnun einstaklingssviðs, kaup á Dælunni og Löðri, einkaviðræður um sölu á dótturfélagi okkar P/F Magn, fyrirætlanir um sölu á tilteknum fasteignum í eigu Skeljungs og aukna þátttöku í rekstri apóteka en félagið mun eignast meirihluta í Lyfsalanum. Þessar breytingar eru afrakstur vinnu við mótun nýrrar stefnu félagsins um að sækja fram og nýta tækifæri á markaðnum til sóknar. Við teljum stofnun þessara dótturfélaga vera mikilvægan þátt í að skerpa áherslur þeirra tækifæra sem félagið býr yfir.“