Það er eins og margir á Íslandi séu sannfærðir um að verslun verði með sama sniði um ókomna tíð og áfram í hefðbundnum verslunum,“ segir Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs, en Skeljungur keypti fyrir skömmu þriðjungshlut í WEDO, sem á meðal annars netverslunina Heimkaup.

„Við erum nokkuð viss um að hefðbundnar verslanir verði ennþá til staðar en við erum ekki sannfærð um að þetta verði eina fyrirkomulag verslunar og dreifingar í framtíðinni.“ Hann segir skoðunina innan fyrirtækisins vera þá að framtíð smásölu sé að miklu leyti í hinum stafræna heimi. „Þá á ég við smásölu í rýmri merkingu. Netverslun vex mjög ört erlendis og þótt Íslendingar séu mjög framarlega á mörgum sviðum þá er Ísland eftir á á þessu sviði. En það er að breytast og við munum sjá mikinn vöxt. Ég sé þó ekki fyrir mér að smásala muni aukast í heildina heldur taka netverslanir sneið af kökunni frá hefð- bundnum smásöluverslunum.“

Þegar Hendrik talar um smásölu á hann þó ekki bara við um hefðbundna smásölu eins og föt og matvöru. „Hún nær til margra vöruflokka, líka vöruflokka sem Skeljungur selur nú þegar og við munum hafa fjölda tækifæra, rétt eins og keppinautar okkar, þegar tilfærslan verður frá hefð- bundinni smásölu yfir í netverslun – bæði þegar kemur að sölu en ekki síður afhendingu. Við höfum unnið að þessu innanhúss og kaupin á Heimkaup eru kannski fyrsta birtingarmynd þess sem við erum að gera og í hvaða átt við erum að fara.“

Tvinna saman netverslun og bensínstöðvar

Hendrik segir stærstu hindrun uppbyggingar netverslunar vera að leggja grunninn, finna réttu tölvulausnirnar og fólkið, byggja upp dreifikerfið og komast að því hvað viðskiptavinurinn vill. „Þó svo að Heimkaup sé tiltölulega ungt fyrirtæki þá hafa þau dýrmætt forskot þegar kemur að netverslun, dreifingu og notendaviðmóti á netinu. Allt verður þetta nauðsynlegt fyrir smásölu í framtíðinni,“ segir Hendrik.

„Við þurfum að horfast í augu við að þessi bransi er að breytast mikið – ekki bara með komu Costco heldur líka með netverslun. Keppinautar okkar virðast flestir ætla að veðja á hefðbundnar verslanir á með- an við horfum aðeins lengra til framtíðar, framtíðar sem er ef til vill ekki svo fjarlæg.“ Hann segir kaupin líka opna nýja markaði og möguleika fyrir Skeljung. „Við sjáum erlendis mikið talað um kostina sem felast í vel staðsettum verslunum, til dæmis í lestarstöðvum þar sem smásöluverslanir eru notaðar sem staðir þar sem þú getur sótt það sem þú pantar, ekki ósvipað skápum Amazon. Við sjáum þetta sem mikið tækifæri fyrir okkur. Við munum án nokkurs vafa tvinna bensínstöðvarnar okkar við alla okkar netverslanaherferð,“ segir Hendrik. Hann bendir einnig á að Skeljungur eigi í miklu og góðu samstarfi við Basko, þó svo að kaup hins fyrrnefnda á þeim síðarnefnda hafi ekki gengið eftir.

„Við viljum auka enn samstarf þessara fyrirtækja. Núna erum við búin að kaupa stóran hlut í Heimkaup og Basko keypti stóran hlut í Eldum rétt,“ segir Hendrik. „Bæði Skeljungur og Basko virðast hugsa mjög framsækið um verslun og við eigum í mjög góðu samstarfi.“ Í náinni framtíð gætu viðskiptavinir Eldum rétt því mögulega sótt matarsendingar sínar á bensínstöðvar Skeljungs, en í dag er á höfuðborgarsvæðinu einungis hægt að sækja þær við Nýbýlaveg eða fá þær sendar heim að dyrum gegn gjaldi. „Það virðist alveg vera vit í því, sérstaklega ef þú gætir sótt það og fleira, annaðhvort hefðbundnar Skeljungsvörur eða aðrar vörur sem þú hefðir pantað.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .