Stjórn Skeljungs hefur samþykkt greinargerð vegna yfirtökutilboðs Strengs hf. í allt hlutafé Skeljungs. Þar kemur meðal annars fram að viðbúið sé við sölu eigna, minni efnahagsreikning, fækkun starfsstöðva og vegna annarra fyrirhugaðra hagfræðingaraðgerða muni starfsmönnum Skeljungs taka að fækka.

Enn fremur að samsetning starfsliðs félagsins taki breytingum og að starfsstöðvar Skeljungs geti færst til. Stjórn Skeljungs er skyldug til þess að gera sérstaka greinargerð vegna yfirtökutilboðs þar sem fram kemur rökstutt álit stjórnarinnar á tilboðinu og skilmálum þess.

Þar sem Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður, og Þórarinn Arnar Sævarsson eiga hagsmuna að gæta tóku þeir ekki þátt í að semja greinargerðina. Þau þrjú félög sem standa að baki Strengs eru 365 hf., RES 9 og Loran. 365 er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur sem er eiginkona Jóns Ásgeirs. RES 9 er í eigu RES II ehf., sem er í eigu hjónanna Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttir, og No. 9 Investments Limited.

RPF er í jafnri eigu Loran ehf. sem er í eigu Þórarins A. Sævarssonar og Premier eignarhaldsfélags, sem er í eigu Gunnars Sverris Harðarsonar.

Farið er yfir skoðun tilboðsgjafa, sem í þessu tilfelli er félagið Strengur. Fram hefur komið að félagið væntir þess að rekstrarumhverfi Skeljungs komi til með að taka grundvallarbreytingum á næstu árum, meðal annars vegna orkuskipta og fækkun bensínstöðva.

Í greinargerðinni kemur fram að vænta megi þess að eignir verði seldar og uppsetning samstæðunnar taki breytingum. „Breytingar þessar munu eflaust hafa áhrif á hagsmuni félagsins. Þannig muni tekjusamsetning samstæðunnar breytast auk þess sem áhætta í rekstri félagsins verði önnur.“

Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá hyggst Strengur fjármagna yfirtökutilboðið að mestu með lánsfé frá Arion banka, Íslandsbanka og öðrum lánveitendum. Til að greiða lánin til baka hyggjast forsvarsmenn Strengs selja eignir Skeljungs og greiða hluthöfum arð eða lækka hlutafé. Einnig er stefnt að því að afskrá Skeljung úr Kauphöll Íslands.