Stjórnendur og ráðandi hluthafar Skeljungs hafa í hug að gera breytingar á samþykktum félagsins þannig megintilgangur þess verði fjárfestingastarfsemi. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljungs, kynnti hugmyndirnar fyrir lífeyrissjóðum sem eru í hópi stærstu hluthafa félagsins í síðustu viku, samkvæmt heimildum Markaðarins .

Áformin um að breyta samþykktum félagsins krefjast samþykki hluthafa 66,7% hlutafjár Skeljungs. Gangi þau eftir er stefnt að því að starfrækja Skeljung sem fjárfestingafélag sem yrði áfram skráð á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar.

Jón Ásgeir fer fyrir fjárfestingafélaginu Strengi sem á 50,09% hlut í Skeljungi. Svo virðist sem Strengur hafi fallið frá fyrri áformum um afskráningu Skeljungs, sem kynnt voru í fjárfestakynningu olíufyrirtækisins í nóvember síðastliðnum.

Strengur hefur reglulega lýst yfir endurskipulagningu á rekstri Skeljungs sem felst meðal annars í sölu eigna og fækkun bensínstöðva. Fjárfestingahópurinn telur að rekstrarumhverfi Skeljungs muni taka grundvallarbreytingum á næstu árum, sér í lagi vegna orkuskipta.

Skeljungur hefur verið með færeyska dótturfélagið P/F Magn í söluferli. Á móti kemur keypti félagið nýlega allt hlutafé í Port 1 ehf, sem er eigandi Dælunnar og Löðurs.

Skeljungur hefur rutt sér til rúms á öðrum mörkuðum ótengdum eldsneytissölu líkt og með kaupum á meirihluta hlutafjár Lyfsalans. Skeljungur keypti einnig Gló að fullu í byrjun sumars. Fyrir rúmu ári síðan eignaðist Skeljungur einnig fjórðungshlut í Brauð&Co. Fyrirtækið rekur einnig dagvöruverslanir undir merkjum EXTRA hér á landi. Skeljungur fer einnig með fjórðungshlut í Wedo, sem á og rekur vefverslanir á borð við Heimkaup.is.

Skeljungur sendi frá sér tilkynningu eftir hádegi í dag vegna málsins. Stjórn félagsins áréttar þar að engin ákvörðun hafi verið tekin varðandi hugmyndirnar um að breyta Skeljungi í skráð fjárfestingafélag.