Nýtt vaxtaviðmið fyrir hámarksgreiðslubyrðarhlutfall sem Seðlabankinn tilkynnti um í morgun mun gilda um öll veitt fasteignalán frá og með morgundeginum samkvæmt upplýsingum frá bankanum.

Samkvæmt hinum nýju reglum sem settar eru af Fjármálastöðugleikanefnd bankans og kynntar voru í morgun skal við útreikning greiðslubyrðarhlutfalls – sem má að hámarki vera 35% ráðstöfunartekna samkvæmt reglum Seðlabankans frá í fyrra eða 40% fyrir fyrstu kaupendur – miða við 3% vexti verðtryggðra lána og 25 ára lánstíma, en hægt er að fá slík lán á 1,3% vöxtum og til allt að 40 ára í dag.

Þá var 5,5% lágmarksviðmið sett fyrir greiðslumat óverðtryggðra lána, en lægstu óverðtryggðu vextir á markaðnum eru 4,5% breytilegir í dag hjá lífeyrissjóðum og 5,4% hjá bönkunum. Viðmiðunartímabil er allt að 40 ár, sem er það lengsta sem almennt býðst á markaðnum í dag, og hefur því ekki áhrif.

Þess ber þó að geta að lánveitendur mega veita lán að upphæð allt að 5% heildarlánveitinga á hverjum ársfjórðungi utan þessara reglna. Ekki hefur tekist að fá viðbrögð frá viðskiptabönkunum við því hvort reglurnar muni hafa áhrif á þá sem þegar eru í lántökuferli – þó erfitt sé að skilja orðalag Seðlabankans um „öll lán veitt frá og með morgundeginum“ öðruvísi – enda hefur gildistaka hins nýja viðmiðs enn ekki verið tilkynnt opinberlega þegar þetta er skrifað.

Til samanburðar var reglan um hámark greiðslubyrðarhlutfallsins tilkynnt í lok september í fyrra og tók gildi í byrjun desember, en hámark veðsetningarhlutfalls tók þegar gildi þegar tilkynnt var um það í fyrrasumar.

Þær reglur hafa hinsvegar haft afar takmörkuð áhrif hingað til, sér í lagi veðsetningarhámarkið, enda aðeins örfáar lánastofnanir sem veittu lán umfram það sem reglan kveður á um þegar hún var sett, en svo Viðskiptablaðið viti til voru það aðeins Landsbankinn og Brú lífeyrissjóður, sem nýlega höfðu farið að bjóða 85% lán til annarra en fyrstu kaupenda.