Wall Street Journal heldur áfram að afhjúpa ýmis vafasöm mál sem hafa komið upp innan raða samfélagsmiðlarisans Facebook, sem finna má í hinum svokölluðu Facebook skjölum. Í þetta skiptið snýst afhjúpunin um aðgerðaleysi Facebook gagnvart mansali og eiturlyfjahringjum .

Í minnisblaði sem fyrrum rannsóknarlögreglumaður, sem var svo ráðinn til starfa hjá Facebook, sendi til starfsmanna Facebook í byrjun árs kemur fram að mexíkóskur eiturlyfjahringur notaði Facebook til að safna liði, þjálfa og ganga frá greiðslum til meðlima hringsins.

Þrátt fyrir að um væri að ræða skýrt brot á notendareglum Facebook aðhafðist fyrirtækið ekki á nokkurn hátt og gerði enga tilraun til að koma í veg fyrir að eiturlyfjahringurinn gæti sett inn færslur á Facebook og myndadeilinga samfélagsmiðilinn Instagram, sem er í eigu Facebook.

Litið framhjá mansali og hatursáróðri

Í fleiri innanhússkjölum má sjá að starfsmenn Facebook höfðu lýst yfir áhyggjum af því hvernig samfélagsmiðlar þess væru notaðir í sumum þróunarríkjum, þar sem notendafjöldinn er mikill og fer sífellt fjölgandi. Skjölin sýna jafnframt að viðbrögð stjórnenda Facebook við þessum áhyggjum voru lítil sem engin.

Starfsmenn höfðu m.a. komið auga á að mansalshringir í Mið-Austurlöndum notuðu miðla Facebook til þess að táldraga konur inn í ofbeldisfulla nauðungarvinnu, þar sem þær voru gerðar að kynlífsþrælum.

Þá sáu starfsmennirnir að vopnaður hópur í Eþíópíu notuðu samfélagsmiðlana til þess að hvetja til ofbeldis gegn kynþáttahópum sem eru í minnihluta. Auk þess sendu starfsmennirnir viðvaranir um að líffærasala, klám og áróður stjórnvalda gegn pólitískum andstæðingum þrifist innan samfélagsmiðlanna.

Í sumum tilfella var gripið til aðgerða og notendur eða síður þar sem ofangreint mátti finna fjarlægðar, en í flestum tilfellum var ekki gripið til neinna aðgerða.

Þróunarlönd mikilvæg notendavexti

Opinberlega hefur Facebook sagt að tekið sé hart á öllum ólöglegum athæfum sem rati inn á samfélagsmiðla fyrirtækisins, með því að taka síðuna eða notendur úr umferð. Þó hefur ekki verið ráðist í endurbætur á kerfum samfélagsmiðlanna og meðan svo er geta þeir sem standa fyrir ólöglegu athæfi skráð sig inn á miðlana á nýjan leik og tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið. Þess í stað er öll áhersla lögð á að halda í notendur, aðstoða samstarfsaðila og greiða götu einræðisstjórna, þar sem að Facebook þarf að halda þeim góðum til þess að fá leyfi til að vera með starfsemi í landinu.

Facebook lítur á skaðleg samskipti sem fara fram innan miðla félagsins í þróunarlöndum sem „kostnað þess að stunda viðskipti“ í slíkum löndum, að sögn Brian Boland, fyrrverandi yfirmanns hjá Facebook, sem sá um að koma á samstarfi við fjarskiptafélög í Afríku og Asíu. Hann lét af störfum undir lok síðasta árs.

Notendur í þróunarlöndum eru Facebook mikilvægir sökum fjölda þeirra. Til marks um það eru notendur í þróunarlöndum nú þegar hundruð milljónum fleiri í þeim löndum en notendafjöldinn er í Bandaríkjunum. Yfir 90% notenda Facebook eru búsettir utan Bandaríkjanna og Kanada. Hægt hefur verulega á vexti nýrra notenda þar og í Evrópu. Staðan er því sú að þróunarlönd standa undir nærri öllum nýskráninga á Facebook. Í þróunarlöndum hefur Facebook einnig mjög sterka stöðu sem helsta samskipta- og fréttaveita.

Í skjölunum fer heldur ekki á milli mála að Facebook leggur allt kapp á að blása út á ógnarhraða í þróunarlöndum. Hyggt fyrirtækið m.a. byggja upp fjarskiptainnviði til þess að geta sett upp þráðlaust net í fátækustu hlutum landa á borð við Indónesíu. Í skjölunum er svæðunum þar sem ráðast á í slíkar framkvæmdir sem fátækrahverfum (e. slums).

Byggir allt ofangreint á gögnum starfsmanna Facebook sem höfðu það hlutverk að rannsaka notkun samfélagsmiðilsins á heimsvísu, þar á meðal mansal og annað ólögmætt athæfi sam þar færi fram. Í skjölunum má sjá að starfsmennirnir eru myrkir í máli og lýsa m.a. yfir mikilli gremju með að ekki sé komið í veg fyrir að hægt sé að birta á miðlinum myndbrot af aftökum, ofbeldisverkum, hótanir alræðisstjórna gagnvart andstæðingum sínum og auglýsingar á vegum mansalshringja.

WSJ hefur undir höndum mikinn fjölda innanhússkjala frá Facebook og er afhjúpunin sem rakin er hér að ofan sú fjórða í röðinni. Hér má sjá frétt Viðskiptablaðsins sem kemur inn á fyrstu þrjár afhjúpanir WSJ.