Yfirskattanefnd hefur staðfest úrskurð Skattsins þess efnis að rekstraraðili mötuneytis- og kaffistofu eigi ekki rétt á lokunarstyrk. Umræddur veitingastaður er staðsettur innan safns sem gert var að loka í fyrstu sóttvarnaaðgerðum og var lokað um leið og safninu. Að mati Skattsins og nefndarinnar mátti veitingastarfsemi halda áfram og því hefði staðurinn getað verið áfram opinn.

Krafa rekstraraðilans byggði á því að staðnum hefði verið skylt að loka og því ætti hann rétt á lokunarstyrk. Skatturinn taldi á móti að veitingastarfsemi hefði sætt fjölda- og nálægðartakmörkunum en ekki lokun og því hefði reksturinn getað haldið áfram. Því var beiðni um styrkinn hafnað.

Þessu undu rekstraraðilar ekki og bentu á að safninu hefði verið gert að loka samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra. Umræddur staður væri starfræktur inni á safninu og rekstur hans því fullkomlega háður því að safnið væri opið. Eðli málsins samkvæmt gætu gestir ekki komið inn á staðinn ef dyrnar væru læstar en sami inngangur er fyrir safnið og veitingastaðinn. Farið var fram á að fá greiddan lokunarstyrk svo eigandi félagsins myndi ekki sitja uppi með allt tjónið.

Undir rekstri málsins fyrir nefndinni var þess óskað að heilbrigðisráðuneytið léti uppi álit sitt á málinu. Í erindi ráðuneytisins kom fram að þótt safninu hafi verið skylt að loka þá hafi það ekki gilt um matsöluna. Mögulegt hefði verið fyrir hana að aðlaga sig að breyttum aðstæðum í samráði við leigusala. Þótt sýna yrði því skilning að starfsemi staðarins hefði lagst niður að verulegu leyti þá yrði ekki séð að lög um lokunarstyrki heimiluðu að bæta „afleiddar lokanir“ á borð við þessa.

Yfirskattanefnd sagði að það væri afdráttarlaust skilyrði fyrir lokunarstyrkjum að rekstraraðila hafi verið skylt að loka. Engar undantekningar væru frá því skilyrði. Þótt fallist yrði á að í reynd hafi verið „ómögulegt eða illgerlegt að starfrækja kaffiteríuna innan veggja safnsins meðan lokun stóð yfir, verður ekki litið framhjá því að sú aðstaða kom til vegna lokunar safnsins sjálfs en var ekki afleiðing þess að kæranda hafi verið skylt að láta af starfseminni eftir fyrrgreindum ákvæðum [sóttvarnaauglýsingarinnar],“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

Af þeim sökum var kröfu um lokunarstyrk hafnað.