Í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans er spurt hvort kaflaskil séu að verða á fasteignamarkaði en vísað er til þess að á síðustu sex mánuðum hafi húsnæðisverð aðeins hækkað um 4,5% en á sex mánuðunum á undan því hafi það hækkað um 12,5%.

Þá segir jafnframt að grunnurinn á bakvið hækkun húsnæðisverðs sé allt annar nú en hann hafi verið í síðustu uppsveiflu og að fram á síðustu mánuði hafi húsnæðisverð hækkað í takt við mikla hækkun ráðstöfunartekna og því sé minna um skuldsetningu heldur en var í síðustu uppsveiflu. Því sé ólíklegt að að snögg og skörp leiðrétting á húsnæðisverði líkt og átti sér stað í tengslum við hrunið muni endurtaka sig.

Íbúðum til sölu á höfuðborgarsvæðinu hefur einnig fjölgað nokkuð á þessu ári eftir nær stöðuga fækkun á árunum 2015 og 2016 en að sama skapi hefur sölutími fasteigna lengst. Hagfræðideildin segir hvort tveggja til marks um að meiri ró hafi færst á markaðinn. Hagfræðideildin spáir 19% hækkun fasteignaverðs milli 2016 og 2017. Að verð hækki svo um 8,5% á árinu 2018, 7% á árinu 2019 og 6% á árinu 2020.

Þá segir ennfremur að aukið framboð nýrra íbúða muni ekki leiða til verðlækkana, það geti minnkað spennu en ekki lækkað verð til skemmri tíma litið. Það helgist af því að einingarverð á nýjum íbúðum sé hærra en á eldri en nýjar íbúðir en fermetraverð nýrra íbúða er að meðaltali 14% hærra en á eldri íbúðum og þær séu jafnframt að meðaltali 14% stærri.