Þýski bankinn IKB Deutsche Industriebank AG sendi frá sér afkomuviðvörun í gær vegna þróunar á markaði með áhættusöm fasteignalán í Bandaríkjunum (e. subprime mortgage) og tilkynnti að framkvæmdastjóri félagsins væri hættur störfum. Fram kom í tilkynningunni að tap vegna stöðutöku í áhættusömum fasteignalánum í Bandaríkjunum gerði það að verkum að tekjur ársins yrðu "umtalsvert lægri" en gert hefði verið ráð fyrir.

Afkomuviðvörunin kemur aðeins tíu dögum eftir að forráðamenn félagsins staðfestu tekjuáætlanir ársins en þær námu 280 milljónum evra. Í kjölfar tilkynningarinnar féll gengi hlutabréfa bankans um tæp 17%. KfW, sem er þýskur ríkisbanki sem á 38% í IKB, tilkynnti jafnframt í gær að hann myndi verja IKB áhlaupi og tryggja greiðslugetu hans.

Þýski bankinn er síðasta fórnarlamb hræringanna á bandaríska fasteignamarkaðnum. Margt bendir til þess að þeim eigi eftir að fjölga: Forráðamenn annars þýsks banka, Commerzbank, tilkynntu í gær að þeir væntu að niðursveiflan í markaðnum með áhættusöm fasteignalán í Bandaríkjunum kynni að kosta bankann áttatíu milljónir evra. Þrátt fyrir það telja þeir að afkoma bankans á árinu standist áætlanir.

Áhættumat á skuldabréfum fyrirtækja eykst
Nýleg gjaldþrot útlánafyrirtækja á þeim markaði ásamt aukinni áhættufælni hefur gert það að verkum að fjármálafyrirtæki og vogunarsjóðir sem hafa tekið stöðu í skuldasöfnum sem innihalda slík lán með einum eða öðrum hætti hafa tapað miklu fé. Þetta hefur meðal annars haft það í för með sér að áhættumat á skuldabréfum fyrirtækja hefur farið hækkandi að undanförnu þar sem fjárfestar leita í auknum mæli í ríkisskuldabréf. Bloomberg fréttastofan hefur eftir sérfræðingum Barclays-bankans að fjármagn hafi ekki leitað úr fyrirtækjaskuldabréfum yfir í ríkisskuldabréf í meiri mæli í sjö ár. Þessi þróun, ásamt ótta um að þróunin á bandaríska fasteignamarkaðnum kunni að smita út frá sér til annarra hagkerfa, endurspeglast meðal annars í mikilli hækkun á vísitölum sem mæla skuldatryggingaálag á skuldabréf fyrirtækja í evrum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag