„Bíllinn er að upplagi tjónabíll þegar hann er keyptur, þess vegna er það skráð í skráningarskírteinið að hann sé tjónaður. Það sem gerist síðan er að ég lendi aftur í tjóni sem ég veld sjálfur á bílnum. Ég fékk vatn inn á vélina. Ég keyrði út í á og olli því,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, í samtali við Fréttablaðið .

Nokkuð hefur verið fjallað um bílakaup Reynis síðustu vikur en eftir að hann olli tjóni á áðurnefndum bíl keypti framkvæmdastjórinn 10 milljóna króna jeppa fyrir hönd fyrirtækisins til afnota fyrir sjálfan sig. Óhappið sem Reynir talar um átti sér stað með þeim hætti að vatn komst inn á vél bílsins, Grand Cheerokee árgerð 2005, þegar hann keyrði hann yfir Norðurá í veiðiferð í sumar.

Reynir segir jafnframt í samtali við Fréttablaðið að farið hafi verið með bílinn á verkstæði í Reykjavík og ljóst hafi verið í ágúst að ekki tæki því að gera við hann þar sem það hefði kostað 1.300 til 1.500 þúsund krónur. Því hafi bíllinn verið seldur á partasölu fyrir 350 þúsund krónur, og ákveðið hafi verið að Reynir tæki á sig mismuninn sem hafi verið í kringum eina milljón króna. Hann hafi þó ekki enn gert milljónina upp við Strætó þar sem það eigi eftir að formgera með hvaða hætti það verði.