Kostnaður vegna skemmda sem unnar hafa verið á húsnæði Alþingis frá áramótum hefur farið yfir tíu milljónir króna. Þar af nemur kostnaður vegna viðhalds og þrifa í kjölfar mótmælanna í vikunni um 5,5 milljónum króna.

Þetta upplýsa skrifstofustjóri Alþingis og forseti þingsins í samtali við Viðskiptablaðið.

Inni í þessum tölum er ekki kostnaður vegna aukins starfsmannahalds en fleiri starfsmenn þingsins voru kallaðir til og unnu lengur vegna mótmælanna á þriðjudag og miðvikudag.

Starfsmennirnir voru í alls kyns störfum á þeim aukavöktum, samkvæmt upplýsingum frá Alþingi. Þeir voru til dæmis með aukinn viðbúnað og reyndu að sinna lögreglunni með brauð og kaffi.

Um þrjátíu rúður voru brotnar

Á þriðja tug rúða voru brotnar í mótmælunum í vikunni og framdyr skálans voru tvívegis brotnar. Auk þess voru bakdyr hússins hnjaskaðar og myndavél við þær eyðilögð.

Þá var olíumálningu hent á húsið - sem þarf að þrífa - og koparrör úr rennum eyðilögð, samvæmt upplýsingum frá Alþingi.