Stærsta skemmtiferðaskipið sem heimsækir Ísland í sumar, MSC Splendida, kom til Reykjavíkur á þriðjudag með 3.900 farþega og hélt af landi brott í gær. Eftir því sem Ísland verður vinsælli áfangastaður meðal ferðamanna virðist komum risastórra skemmtiferðaskipa hingað til lands einnig ætla að fjölga.

Fyrsta skemmtiferðaskipið ársins kom til Reykjavíkur þann 6. mars, en samkvæmt tölum frá Faxaflóahöfnum munu alls 108.903 farþegar hafa komið til höfuðborgarinnar með skemmtiferðaskipum á árinu 2016 þegar síðasta skipið, Ocean Diamond, siglir úr höfn þann 13. október næstkomandi. Um er að ræða 8,75% aukningu frá því í fyrra þegar 100.141 farþegar komu til Reykjavíkur með skemmtiferðaskipum. Til þessa hefur Reykjavík tekið á móti 61.690 farþegum í 60 skipakomum á árinu.

Mikil aukning á landsbyggðinni

Nánast öll skemmtiferðaskip sem leggja leið sína hingað til lands, sannarlega öll þau stærstu, koma við í Reykjavík og gefa tölur Faxaflóahafna því nokkuð góða mynd af heildarfjölda ferðamanna sem heimsækja landið með slíkum skipum. Hins vegar hafa aðrar hafnir sótt verulega í sig veðrið undanfarin ár og má þar sérstaklega nefna Akureyri og Ísafjörð. Þannig munu hartnær 90.000 farþegar heimsækja Akureyri á skemmtiferðaskipum í sumar og tæplega 78.000 munu heimsækja Ísafjörð, en hjá þeim síðarnefndu er um 44,3% aukningu að ræða frá því í fyrra. Þegar hafa 52.684 farþegar komið til Akureyrar og 48.564 til Ísafjarðar. Þá hafa hafnir á borð við Vestmannaeyjar, Seyðisfjörð og Grundafjörð komið sterkar inn. Í ár munu yfir 18.000 farþegar skemmiferðaskipa hafa komið til Vestmannaeyja, sem er tæplega 130% aukning frá því í fyrra.

Hér að neðan má sjá töflu sem sýnir þróun komu skemmtiferðaskipa í sex stærstu hafnir landsins sem og bókanir fyrir næsta ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .