Skemmtigarðurinn í Smáralind hefur verið kosinn „Besti innanhúss skemmtigarður heims 2012“ af IAAPA, alþjóðlegum samtökum Skemmtigarða. Dómnefnd IAAPA valdi Skemmtigarðinn Smáralind sem siguvegara fyrir framúrskarandi metnað í uppbyggingu sinni, úrvali af afþreyingu fyrir alla aldurshópa, hönnun og þjónustu. Verðlaunin hafa verið nefnd Óskarsverðlaun Skemmtigarða.

Fram kemur í tilkynningu að verðlaunaafhendingin hafi farið fram í Orlando í Flórída í gær og tóku Eyþór Guðjónsson, Ingibjörg Guðmundsdóttir og Sigurður Örn Eiríksson, sem reka Skemmtigarðinn, á móti verðlaununum.

IAAPA eru alþjóðleg heimssamtök Skemmtigarða með yfir 4300 meðlimum í 97 löndum. Meðlimir IAAPA reka bæði litla og stóra, innan og utanhúss Skemmtigarða á borð við Walt Disney og Universal Studios.

„Þetta er mikill og óvæntur heiður fyrir Skemmtigarðinn og starfsfólk hans, samstarfsaðila og fjárfesta sem höfðu trú á því að byggja upp Skemmtigarð af þeim metnaði sem raun ber vitni. Þetta eru stærri verðlaun en við áttum von á og það var gaman að standa við hlið verðlaunaþega frá Walt Disney, Sea World og annarra stærri garða en okkar og sannast kannski hið margkveðna að stærðin skiptir ekki alltaf máli,“ segir Eyþór Guðjónsson, framkvæmdastjóri Skemmtigarðsins, í tilkynningunni.