Elínrós Líndal stofnaði tískuhúsið ELLU árið 2011 og hefur vakið mikla athygli á skömmum tíma. Mikil áhersla er lögð á „slow fashion“ þar sem hugsað er um að bæta umhverfið, auka gæðin en minnka magnið. Elínrós segir tískuvikuna síðar í mánuðinum hafa talsverð áhrif á tækifæri tískuhúss á borð við Ellu.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkar fyrirtæki að taka þátt í RFF?

Við erum ungt fyrirtæki og tökum því fagnandi öllum tækifærum sem gefast sem geta eflt okkur á sem flestum sviðum. Við önnum einungis hluta af eftirspurn hér á landi, og þar sem okkur er mjög umhugað um markaðinn hér er mikilvægt að geta sýnt að vori hvað má búast við að sjá í verslun okkar í Ingólfsstræti að hausti. Viðskiptavinir okkar hafa sýnt tískuvikunni hér mikinn áhuga og við finnum fyrir spenningi og eftirspurn eftir sýningar sem þessar. Eins höfum við fengið góðar umfjallanir á erlendri grundu í tengslum við RFF. Ég myndi segja að ef fyrirtæki hefur áhuga á að vera stefnumótandi í bransanum, þá verði það að taka þátt.

Voru einhver ákveðin tækifæri sem þið fenguð eftir að hafa tekið þátt í fyrra?

Við fengum góða umfjöllun frá t.d. Jo Piazza sem ritstýrir nú tímaritum á borð við InTouch, Life and Style magazines. Hún var áður hjá ABC og New York Times og fylgist vel með okkur hjá ELLU. Er dugleg að benda á okkur við aðra fjölmiðla og framvegis. Það er engin auðveld leið í þessum bransa en alltaf gott að hafa áhuga fjölmiðla. Ilmvatnið okkar Night var valið jólailmur hjá Positive Luxury fyrir jólin og hefur salan í gegnum netið margfaldast á ilmvötnunum okkar. Stærsta tækifærið var aftur að sýna íslenska markhópnum okkar línuna. Við vorum mjög sáttar við síðasta ár og förum jákvæðar inn í framtíðina.

Reykjavik Fashion Festival verður haldið í Hörpu 27. mars til 30. mars. Þar munu átta ólík fyrirtæki sýna hönnun sína. Rætt er við Elínrós í blaðinu Tísku, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .