*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 16. júlí 2019 14:26

Skemmtiþættir fái ekki endurgreiðslu

Samkvæmt nýju frumvarpi munu endurgreiðslur til kvikmyndagerðar ekki ná til spjall- og raunveruleikaþátta.

Ritstjórn
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu auk þess að vera sitjandi dómsmálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra atvinnuega- og nýsköpunar hyggst þrengja skilyrði til að fá endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hér á landi samkvæmt nýframlögðu frumvarpi. Í frumvarpinu sem er breyting á lögum frá árinu 1999 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, en þau hafa það að markmiði að styðja við kvikmyndagerð hér á landi.

Með breytingunum verður lögð aukin áherslu á að laða erlenda aðila til framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hér á landi með því að takmarka á endurgreiðslurnar við kvikmyndir í fullri lengd, leiknar sjónvarpsmyndir eða röð leikinna sjónvarpsþátta og heimildarmyndir.

Þar með munu, ef breytingarnar sem nú eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda ná fram að ganga, falla út spjallþættir, raunveruleikaþættir og skemmtiþættir ýmis konar, en endurgreiðslur til slíks efnis eru sagðar hafa aukist töluvert til slíkrar þáttagerðar á síðustu árum.

Í skýrslu sem starfshópur skilaði til ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á vormánuðum var lagt til að þak verði sett á ársgreiðslu til einstakra verkefna, að krafa verði um að öll verkefni lúti endurskoðun á kostnaði og að skilin á milli endurgreiðslukerfisins og úthlutunar úr Kvikmyndasjóði verði skýrari.

Með þessum tillögum er bæði lögð áhersla á bætta nýtingu þeirra fjármuna sem fara til endurgreiðslna og á lækkun heildarupphæðar endurgreiðslna. Tillögurnar miða að því að horfa í auknum mæli til upphaflegs markmiðs og tilgangs laganna og gera viðeigandi breytingar á kerfinu með það fyrir augum að gera greinina sjálfbærari til lengri tíma eins og segir í kynningarefni um breytinguna.