(SKIP.IS) Evrópusambandið hefur ákveðið að skerða makrílkvóta breskra og írskra skipa um 25% á þessu ári vegna veiða þeirra umfram kvóta undanfarin ár. Skerðingin samsvarar rúmlega 45 þúsund tonnum.

Norska sjávarútvegsblaðið Fiskaren hefur það eftir Ritzau fréttastofunni að verðleggja megi tap á aflaverðmæti vegna þessarar skerðingar upp á jafnvirði tæplega 8,2 milljarða ísl. króna. Skipting skerðingarinnar er þannig að bresk (skosk) skip eru skert um tæplega 39 þúsund tonn en þau írsku um tæplega 7 þúsund tonn.

Ýmsir telja að útgerðarfélög í Skotlandi og á Írlandi sleppi vel í þessu máli því þau hafi veitt makríl umfram kvóta í fleiri ár og því hefði skerðingin átt að gilda í fleiri ár en aðeins eitt.