Áætlað er að fyrir hverja 100 bandaríkjadali af vörum sem er skilað til netverslana í Bandaríkjunum kosti úrvinnsla um 27 dollara. Margar netverslanir hafa undanfarið skorið upp herör gegn skilarétti og hafa gripið til sinna ráða í því. Sumar þeirra hafa stytt skilaglugga og aðrar bjóða kaupendum afslátt gegn því að afsala sér skilarétti. Enn aðrar hafa tekið upp á því að rukka sérstakt skilagjald.

Skilahlutfall netverslana jókst mikið í kórónuveirufaraldrinum og var þannig 14% hærra í fyrra en árið 2019. Ástæðuna má rekja til þess að samhliða aukinni netverslun tóku margir upp á því að panta til dæmis margar stærðir af sömu flíkinni, til að tryggja að einhver þeirra passaði.

Líftími vara mislangur

Vöruskil eru netverslunum kostnaðarsamar vegna þess að þeim fylgir flutningskostnaður, birgðahald og umstang starfsmanna. Þar að auki er líftími vara misgóður og þannig getur fatnaður sem hefur verið skilað farið úr tísku áður en tekst að selja hann að nýju.

Þessa breytingu má til dæmis sjá hjá Amazon, einni stærstu netverslun heims. Þannig eru kaupendur varaðir við þegar þeir kaupa vörur sem hefur háa skilatíðni með það að markmiði að þeir hugsi sig betur um og velji frekar vörur sem síður er skilað. Auk þess þurfa notendur nú gjarnan að greiða 1 bandaríkjadal fyrir að skila vörum með pósti.

Nánar er fjallað um málið á WSJ.