Lagabreyting, sem leysa mun úr lagaflækju sem kostað gæti litla verslun með lífræna matvöru mikla vinnu og peninga, verður lögð fram á næstu dögum og búist er við að hún geti farið hratt í gegn, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Flækjan olli því á dögunum að fyrirtækið Veganmatur ehf., sem rekur Vegan búðina og veitingastaðinn Jömm, þarf að sækja sér vottun hérlendis þrátt fyrir að varan sé vottuð í Bretlandi og að íslensk stjórnvöld hafi lýst því yfir í aðdraganda Brexit að viðskipti við Bretland með matvörur myndu ekki raskast.

Auk þess að þurfa að greiða 400 þúsund krónur árlega fyrir innlenda vottun er meðal annars gerð krafa um að fyrirtækið skrái upplýsingar um seljanda og lýsingu hverrar einustu innfluttu lífrænt vottuðu vörutegundar, sem hlaupa á hundruðum, þrátt fyrir að hver vörutegund sé þegar skráð í samevrópska rekjanleikagrunninn TRACES, sem stjórnvöld hafa aðgang að.