Helsti þyrnirinn í augum umsagnaraðila um frumvarp til laga um greiðsluskjól eru ákvæði sem skerða rétt kröfuhafa sem krafist hafa trygginga í formi veða eða annarra tryggingaráðstafanna. Samningsveð hafi það markmið að draga úr áhættu í viðskiptum og gefa kost á lánakjörum til skuldara sem annars hefðu ekki boðist. Frumvarpið veitir heimild til þess að í nauðasamningi megi kveða á um breytingu á greiðsluskilmálum kröfu sem tryggð sé með veði.

Í greinargerð með frumvarpinu er þess getið að „virtum þeim ríku hagsmunum sem hér búa að baki verður ekki talið að með almennri heimild af þessu tagi, sem getur ekki haft nema tímabundin áhrif á veðkröfu og myndi hvorki rýra veðtryggingu né skerða fjárhæð kröfu, sé gengið of nærri hagsmunum samningsveðhafa“.

Í umsögn Advel er bent á það að þrátt fyrir að nauðasamningur hafi áhrif á samningsveðkröfur hefur kröfuhafi ekki atkvæðisrétt um samninginn nema hann afsali sér tryggingarrétti fyrir kröfu sinni. „Fyrirkomulagið er undarlegt, sérstaklega í ljósi þess að tryggingarréttindi samningsveðhafa eru óbein eignarréttindi sem varin eru af [stjórnarskránni],“ segir í umsögninni.

„Hér virðast fyrst og fremst höfð í huga fasteignaveð,“ segir í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja um tilvitnaðan texta í greinargerð frumvarpsins. „Þetta gildir ekki um margvísleg önnur veð svo sem vörubirgðir, lausafjármuni eða útistandandi kröfur sem geta rýrnað hratt í virði á stuttum tíma. […] Ekki verður annað séð en að ákvæðið sé ósamrýmanlegt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og verði frumvarpið að lögum er viðbúið að samningsveðhafar muni láta reyna á stjórnskipulegt gildi laganna hvað þetta varðar,“ segir þar enn fremur.

Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða er vakin athygli á því að téð ákvæði kunni að hafa íþyngjandi afturvirk áhrif sem skert geti stjórnarskrárvarinn eignarrétt. Lánveitendur hafi við lánveitingu réttmætar væntingar um að grundvallarreglur gjaldþrotaskipta haldist tiltölulega stöðugar. Þá sé hætta á því að lánskjör framtíðarinnar kunni að versna fái skuldarar heimild til að gera breytingar á kröfu án aðild kröfuhafa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .