Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, segir að skera ætti niður framlög til þeirra stofnana og ráðuneyta sem ekki bjóða út. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi skilað inn svörum við fyrirspurn fjárlaganefndar um útboð á vegum stofnana þess. Er það fyrsta ráðuneytið sem hefur skilað inn slíku svari, en öll ráðuneytin hafa fengin fyrirspurn frá fjárlaganefnd.

Ýmsar stofnanir hafa verið iðnar við að leita hagkvæmasta verðsins í útboðum. Til dæmis hefur Mannvirkjastofnun boðið út fyrir 79 milljónir króna á síðustu þremur árum og sparnaður áætlaður 40%, en einnig hefur Veðurstofa Íslands boðið töluvert út.

„Þarna eru dæmi frá Veðurstofunni og fleiri stofnunum sem sanna að tugir prósenta sparast og ef það er yfirfært á allt opinbera kerfið þá eru þetta milljarðar ef allar stofnanir myndu gera slíkt hið sama,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir það ekki vanta að stofnanir mæti og segist vanta peninga. Það sé fullkomin mótsögn falin í því að segjast vanta peninga en ætla sér ekki að nýta kosti útboða.