Færeyska-íslenska viðskiptaráðið var stofnað um síðustu helgi í Þórshöfn í Færeyjum og gerðust um fjörutíu fyrirtæki stofnaðilar að ráðinu. Því er ætlað að styrkja enn frekar samskipti þjóðanna á sviði verslunar og viðskipta, vera vettvangur til að stofna til nýrra kynna og tækifæra sem og almennra skoðanaskipta.

Þá var merki ráðsins kynnt, en það varð til eftir samkeppni um hönnun á merkinu. Færeyski arkitektinn Eyðun Eliasen bar sigur af hólmi og hlaut í verðlaun ferð til Íslands fyrir tvo og skerpukjötslæri. Merkið sem er í fánalitum landanna táknar öldur hafsins sem tengir löndin tvö saman.