Mótið er fyrir gamlar skíðakempur, fólk sem hefur æft eða hefur mikinn áhuga á að byrja að taka þátt í öldungamóti,“ segir Sverrir Rúnarsson, einn af skipuleggjendum Kempumótsins sem er öldungamót í skíðum sem haldið er á Akureyri dagana 10.-12. apríl.

Áður fyrr var hefð fyrir því að halda mótið þar sem vöntun var á minna móti en Skíðalandsmóti og þeir skíðakappar sem hættu að æfa gátu tekið þátt á þessu móti, segir Sverrir en mótið er í fyrsta skipti núna haldið af Skíðasambandi Íslands. „Brynja Þorsteinsdóttir hélt þetta sjálf í þrjú skipti en þegar hún flutti til útlanda stórvantaði eitthvað í flóruna fyrir okkur gamla fólkið. Við erum mest í því að sinna þessu með börnunum en þurfum að geta gert eitthvað svona skemmtilegt sjálf.“ Óhætt er þó að segja að þátttakendur í mótinu séu ekki mjög gamlir en yngsti flokkurinn er frá 25 ára aldri. Þegar hafa skráð sig um 40 manns en búist er við um 60 manns á mótið.

„Við byrjum á föstudagskvöldið klukkan sex og þá fær fólk númer og borgar mótsgjald. Við keppum í svigi á föstudagskvöldið og þegar því er lokið er farið á Akureyri Backpackers í skíðagallanum. Daginn eftir byrjar mótið klukkan eitt og þegar því lýkur er farið á lokahóf uppi í golfskála. Það verður verð- launaafhending og aukaverðlaun fyrir fallegasta búninginn og stílinn,“ segir Sverrir með tilhlökkun í röddinni.