Skífan ehf. hefur keypt rekstur Heimkaup.is en Heimkaup.is er ein stærsta vefverslun landsins með yfir 8.500 vöruflokka frá um 650 vörumerkjum. Heimkaup.is var stofnað fyrir ári og nota  þúsundir Íslendinga þjónustu Heimkaup.is til að versla.

Ágúst Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Skífunnar, segir þetta skref í rétta átt. „Framtíðin í sölu afþreyingarefnis er þarna. Salan fer í sífellt meiri mæli fram á netinu og viðskiptavinir okkar vilja geta verslað sínar vörur í rólegheitum úr þægindum heimilisins og Heimkaup.is smellpassar inn í okkar framtíðarsýn.“

Skífan, sem er elsta afþreyingarverslun landsins, var stofnuð árið 1976.  Skífan rekur tvær verslanir undir nafninu Skífan/Gamestöðin, annars vegar í Kringlunni og hins vegar í Smáralind. „Nú bætum við enn einum þjónustukjarnanum við og ég veit að viðskiptavinir okkar eiga eftir að taka þessari viðbót fagnandi.  Þetta er stórt skref fyrir okkur og hér ríkir mikil spenna með framtíðina,“ segir Ágúst.