Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Lánasjóð sveitarfélaga til að leiðrétta lán sem sjóðurinn veitti sveitarfélaginu Skagafirði um 114,5 milljónir króna. Ágreiningur var um hvort það væri í erlendri mynt eða í íslenskum krónum.Samkvæmt dómi héraðsdóms er lánið í krónum.

Ekki hefur verið ákveðið hvort málinu verður áfrýjað. Tvö önnur mál eru nú til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur af svipuðum toga.

Lánasjóður sveitarfélaga segir í tilkynningu að lánið til sveitarfélagsins Skagafjarðar hafa nokkra sérstöðu í lánasafni sjóðsins. Í flokkun og útreikningum sem sjóðurinn framkvæmdi að forskrift Fjármálaeftirlitsins er heildar höfuðstóll lána sem flokkuðust eins og lán Skagfirðinga bókfærð á 3.039 milljónir króna.

Þá segir lánasjóðurinn í tilkynningunni að það sé ekki skoðun sjóðsins að öll lán sem falla í sama flokk samkvæmt flokkun FME séu eins í skilningi laga. Heildarútlán Lánasjóðs sveitarfélaga í lok árs 2008 námu 19.188 milljónum króna.

Í tilkynningunni segir jafnframt að stjórnendur lánasjóðsins telji að sú sérkennilega staða sé komin upp að verði erlend lán sjóðsins dæmd ólögmæt þá muni eiginfjárhlutfall (CAD) hans batna þótt í því felist fjárhagslegt tjón fyrir sjóðinn og þar með hluthafa hans. Þetta orsakast af því að erlend lán til sveitarfélaga vega 100% í CAD en lán í krónum 20%.