Í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu lýstu íslensk og bresk stjórnvöld því yfir að viðskipti milli landanna myndu ekki raskast vegna útgöngunnar. Gerður var sérstakur fríverslunarsamningur við Bretland sem gagnkvæmur vilji var sagður ríkja um að myndi gera vöruviðskipti enn frjálsari en fyrir útgönguna.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins kom þó eitt og annað upp innan stjórnsýslunnar hér á landi sem torveldað hefði getað viðskipti við Bretland, en stjórnarráðið beindi því til undirstofnana sinna að gefa fyrirtækjum svigrúm meðan fyrirtækin væru að aðlagast nýjum og breyttum aðstæðum.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir Matvælastofnun þó ekki virðast hafa tekið þau skilaboð mikið til sín .

„Það fer eitthvað lítið fyrir því, fastheldnin við formsatriðin er ansi mikil þarna. Það eru býsna margir sem flytja inn frá Bretlandi, og breskir framleiðendur mjög argir út í MAST fyrir það hvernig hún hefur haldið á málum eftir þessa breytingu,“ segir hann, enda sé breytingin engin út frá hagsmunum neytenda.

Hann segir stofnunina hafa sýnt mjög lítið meðalhóf í því að gefa íslenskum innflytjendum og breskum birgjum þeirra færi á að taka sér tíma til að koma merkingum, vottunum og öðru slíku í lag. „Það eru ekki síst minni fyrirtækin sem hafa verið að lenda í þessu. Það felst í þessu alls konar kostnaður og vesen; fyrirtæki hafa meðal annars verið skikkuð til að senda vörurnar aftur út til Bretlands til endurmerkingar með tilheyrandi kostnaði.“

Aldrei séð tækifærin í Brexit
Ólafur segir það ótvírætt erfiðara að eiga viðskipti við Bretland eftir Brexit. „Það er meiri skriffinnska og meira vesen. Maður vonar náttúrulega að það lagist, en okkur finnst íslenska embættismannakerfið ekki hafa verið að hjálpa til í því.“

Á fundi Félags atvinnurekenda með breskum sendimönnum í lok nóvember kom fram að skriffinnska og skortur á rafrænni stjórnsýslu væru meðal þess sem hamlaði greiðum viðskiptum milli Íslands og Bretlands eftir Brexit. „Ég hef aldrei séð tækifærin í Brexit fyrir íslenska út- eða innflytjendur. Þetta er bara vesen.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .