*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Fjölmiðlapistlar 21. apríl 2019 13:43

Skil þetta bara eftir…

Fjölmiðlarýnir fjallar um mál Julian Assange og endurvarpsblaðamennsku.

Andrés Magnússon
Julian Assange var handtekinn í Lundúnum eftir að hafa búið í sendiráði Ekvador í Bretlandi í sjö ár til að forðast handtöku og framsal.
epa

Þegar netið tók að breiðast út undir aldamót mátti þegar greina ýmsar breyttar venjur í samskiptum fólks. Aðallega fyrir það að fólk var allt í einu og óforvandis farið að skrifa hvert öðru aftur, eftir að síminn hafði svo að segja gengið af sendibréfinu dauðu nokkrum áratugum áður. Og skömmu síðar var annar hver maður og amma hans farin að blogga í þokkabót. Það var því kannski ekki að undra að margir bæru þess vegna með sér von um að fram væri komin ný skrifandi kynslóð. Síðan hefur auðvitað á ýmsu gengið með skilaboðum og emoji, félagsmiðlum, FaceTime og snöppum, en samt skrifar fólk og skrifast á miklu meira en fyrr.

Það hafa margir ágætir pennar látið á sér kræla á þeim ritvöllum síðan, en líka alveg urmull af óskrifandi fólki líka. Hinn félagslegi þáttur skiptir líka máli, þar sem fólk lætur sér „læka“ við annarra skrif og deilir þeim, stundum í heilu lagi en oft étur líka hver eftir öðrum. Bæði heitar og miklar skoðanir, ónot sem ofsahrifningu, en ekki sjaldnar einhver sniðugheit, misgóð eins og gengur.

Mikið af því er hrein og klár dægurmenning, orðaleikur dagsins eða hneyksli vikunnar. Og eldist eftir því, snjallyrði eins og hrútskýring er í dag álíka sniðugt og til hammó með ammó.

Margt af þessu er óttalega banalt og sjálfsagt ekki síður vegna þess að mikið af þessu eru misgóðar þýðingar á einhverjum orðaleppum gærdagsins úti í hinum stóra heimi: „Hérna, haltu á bjórnum mínum,“ „tékkaðu á forréttindunum þínum“ og ámóta klunnaskapur.

Þar á meðal er heimsins letilegasti málflutningur, þegar fólk póstar einhverju með orðunum „Ég skil þetta bara eftir hérna.“ Svona eins og það sé þá undir lesandum komið að skilja nákvæmlega það sem viðkomandi meinti og rétt er. En auglýsir auðvitað fyrst og fremst að menn hafi ekkert til málanna að leggja nema sem endurvarpsstöðvar.

* * *

En svo sér maður fjölmiðil eins og Eyjuna/DV gera nánast hið sama, líkt og gerðist á mánudag, þegar skrifuð var frétt undir því yfirskyni að aukin harka væri að færast í umræðuna um þriðja orkupakkann og til dæmis um það teknar nafnlausar dylgjur um að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra eigi persónulega eitthvað undir því að pakkinn verði innleiddur. Sem hann hefur síðan svarað með afdráttarlausum hætti.

Vandinn við þessa frétt er sá að hún var nánast öll endurtekning á dylgjunum, en engin tilraun gerð til þess að grafast fyrir um sannleiksgildið. Undir yfirvarpi að þetta væri nú bara dæmi um hörkuna. „Ég skil þetta bara eftir hérna,“ og lesendum eftirlátið að trúa þessu eða ekki. Eyjunni/DV er það þó til málsbóta að svörum ráðherrans var bætt við fréttina eftir að þau komu fram.

Fjölmiðlarýnir heldur ekki að miðillinn hafi verið í sérstakri herferð gegn Guðlaugi Þór, heldur hafi þetta frekar verið leti, skeytingarleysi og eftirsókn eftir smellum.

Þá þarf Eyjan/DV hins vegar að hugleiða hvert hlutverk fréttamiðla er. Hvert hlutverk Eyjunnar/DV er. Það er ekki að vera sjálfvirk endurvarpsstöð fyrir skoðanir og frásagnir annarra, heldur er punkturinn við fréttamiðlana einmitt sá að þeir skilja hismið frá kjarnanum, segja frá hinu markverða og hinu síður; staðreyna hvað er sannast og réttast; segja svo frá með skýrum og skipulegum hætti, svo ekkert fari milli mála, af sanngirni og hlutlægni; af hörku þegar þess þarf og nærgætni þegar það á við.

* * *

Í vikunni þraut sendiherra Ekvadora í Bretlandi gestrisni gagnvart Wikileaks-foringjanum og Íslandsvininum Julian Assange, sem var afhentur Lundúnalögreglunni eftir að hafa forðast réttvísina í sjö ár. Hann hafði rofið samkomulag við dómstól þar í landi, en hann átti undir höfði sér framsalskröfu til Svíþjóðar vegna ætlaðra kynferðisbrota, en eins vilja bandarísk stjórnvöld hafa hendur í hári hans vegna uppljóstrana um margvísleg ríkisleyndarmál. Stuðningsmenn Assange hafa að vonum miklar áhyggjur af framvindunni, en þó að fæstir hafi áhyggjur af réttaröryggi í Svíþjóð er bandarískt réttarfar meingallað og ákæruvaldið með öll tromp á hendi, alveg burtséð frá réttmæti ásakananna á hendur Assange. Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks og gamalt brýni í íslenskri fjölmiðlun, segir málið einfalt: Bandaríkjastjórn vill fangelsa Assange fyrir að stunda blaðamennsku.

Fjölmiðlarýnir staldrar eilítið við það, því iðja Assange og Wikileaks er ekki borðleggjandi blaðamennska. Þar ræðir vissulega um skyld störf en ekki hin sömu og nefna má ótal dæmi um vinnubrögð Assange, sem aldrei myndu líðast á venjulegum fjölmiðlum. Þegar hann átti í samstarfi við fjölmiðla á borð við New York Times og Guardian gættu þeir þess í hvívetna og brýndu sams konar varúð fyrir honum, en Assange virtist hvorki vilja hirða um góð vinnubrögð í blaðamennsku né siðareglur hvað varðaði birtingu á frumgögnum. Hún var í raun gagnrýnislaust og umhugsunarlaust endurvarp á alls kyns viðkvæmum upplýsingum, sem sumar gátu stefnt lífi saklauss fólks í hættu. Auk auðvitað hins að Assange hafði sjálfstæð markmið með sumum gagnalekunum og var ekki alltaf vandur að vinum, eins og herferðin gegn Hillary Clinton bar með sér.

Hinu má þó ekki heldur gleyma að sumar af þessum upplýsingum voru einstaklega mikilvægar, bæði fyrir blaðamenn og almenning, til þess að varpa ljósi á hernaðaraðgerðir í Írak, þar sem vígtólum var m.a. beitt gegn almennum borgurum.

Þá skiptir ekki síður máli að sá lagabókstafur, sem bandarísk stjórnvöld vitna til í málatilbúnaði sínum nú, eru tölvulögin sem eru alræmd fyrir að vera fráleitlega víðtæk og almennt orðuð, en verknaðarlýsingin snýr öll meira og minna að vinnubrögðum, sem blaðamenn temja sér í daglegu starfi við öflun viðkvæmra upplýsinga frá heimildamönnum og uppljóstrurum, líkt og það sé til marks um glæpsamlegt samsæri. Það er rangt og stórhættulegt fjölmiðlafrelsinu. Alveg burtséð frá því hvort Assange er með þvottekta blaðamannapassa eða ekki. Hvort sem hann er eða var nokkru sinni blaðamaður.

Það breytir ekki því að Assange má ekki frekar en blaðamenn gerast brotlegur við lög, hvort heldur þau varða öryggi ríkisins, líkt og ýmis efni standa til eða annað. En þá á að ákæra hann fyrir það, ekki fyrir að stunda blaðamennsku.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is